Vilja bæta besta árangur Fylkis

Berglind Rós Ágústsdóttir og Renae Cuéllar eigast við í Garðabænum …
Berglind Rós Ágústsdóttir og Renae Cuéllar eigast við í Garðabænum á síðustu leiktíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Fylkis, er á leiðinni í fjórða tímabil sitt í Árbænum en á tíma hennar þar hafa skipst á skin og skúrir. Liðið féll úr efstu deild fyrsta sumarið hennar, 2017 en rauk strax aftur upp um deild ári síðar með því að vinna fyrstu deildina. Sem nýliðar í fyrra gerðu Fylkiskonur vel, höfnuðu í 6. sæti með Berglindi í nýju hlutverki. Hún segist horfa björtum augum á Íslandsmótið í sumar og vill sjá Fylki bæta besta árangur sinn í efstu deild.

„Við erum með mjög góðan hóp og höfum fengið inn leikmenn. Nú þurfum við að gera betur en á síðasta ári, þegar við enduðum í 6. sæti. Við viljum ná fjórða eða fimmta sætinu og fara langt í bikarnum, við höfum aldrei farið í bikarúrslit,“ sagði Berglind í samtali við Morgunblaðið í gær. „Besti árangur Fylkis í efstu deild er fimmta sætið, við viljum bara bæta það.“

Eigum bara tvo miðverði

Berglind, sem hóf ferilinn hjá Val og spilaði einnig með Aftureldingu, er aðeins 24 ára en engu að síður með reyndari leikmönnum í Árbænum. Hún er að upplagi miðjumaður en á síðustu leiktíð spilaði hún lengst af sem miðvörður, enda var vöntun á varnarmönnum í liðið. Það hlutverk leysti hún með mikilli prýði og segist ekki sjá fram á annað en að vera þar áfram í sumar, enda hún og Katla María Þórðardóttir, sem gekk til liðs við Fylki frá Keflavík í vetur, einu miðverðir liðsins.

„Við höfum fengið Kötlu inn í miðvörð, það var vöntun á varnarmönnum í fyrra. Ég er miðjumaður en spilaði allt síðasta tímabil sem miðvörður. Við erum bara tvær núna en eigum marga góða bakverði sem geta leyst okkur af og við höfum æft varnarleikinn mjög vel. Við þurfum fyrst og fremst að bæta sóknarleikinn. Við erum með svo marga miðjumenn og ég og Katla erum einar miðverðir. Ég verð að spila þar.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert