Komum á óvart

Linda Líf Boama fór á kostum í 1. deildinni síðasta …
Linda Líf Boama fór á kostum í 1. deildinni síðasta sumar. mbl.is/Hari

Knattspyrnukonan Linda Líf Boama verður í brennidepli hjá nýliðum Þróttar á Íslandsmótinu í knattspyrnu í sumar. Linda er 18 ára gömul og spilaði sitt fyrsta alvöru tímabil fyrir meistaraflokk í fyrra þegar hún skaut Þrótturum til sigurs í 1. deildinni en hún skoraði 22 mörk í 18 leikjum. Þar áður spilaði hún tvö sumur með liði HK/Víkings og skoraði þrjú mörk í 20 deildarleikjum.

Þrótturum, sem síðast spiluðu í efstu deild 2015, er víða spáð neðsta sætinu eins og gjarnan fylgir nýliðum. Linda segist gefa lítið fyrir spárnar og segir þær einfaldlega tækifæri fyrir liðið til að koma öllum á óvart. „Fólk má spá okkur hvar sem það vill, sagan segir okkur að þessar spár segja lítið. Í fyrra var okkur spáð fjórða sæti og við unnum deildina. Núna er okkur spáð tíunda sæti af tíu liðum og við förum pressulausar inn í þetta tímabil, getum komið öllum á óvart og sýnt hvað við getum.“

Við duttum í lukkupottinn

En hvernig koma Þróttarar undan vetrinum og furðulegu undirbúningstímabili? „Þetta hefur auðvitað verið mjög óhefðbundið undirbúningstímabil og það er margt sem þarf að fínpússa, til dæmis eru útlendingarnir okkar nýkomnir úr sóttkví en við reddum þessu öllu fyrir tímabilið. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að öll liðin eru í sömu aðstæðum.“

Þróttur hefur fengið þrjá útlenska leikmenn fyrir átökin í sumar en það eru bakvörðurinn Mary Alice Vignola frá Bandaríkjunum, miðjumaðurinn Laura Hughes frá Ástralíu sem er nýkomin til landsins og framherjinn Stephanie Riberio frá Bandaríkjunum. Hins vegar er Lauren Wade frá Norður-Írlandi farin til Skotlands en hún skoraði 20 mörk fyrir Þróttara á síðustu leiktíð.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert