Selfyssingur hóf bikarkeppnina á fjórum mörkum

Selfyssingar unnu stórt í fyrstu umferðinni í bikarnum.
Selfyssingar unnu stórt í fyrstu umferðinni í bikarnum. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Knattspyrnutímabilið í íslenska fótboltanum hófst loks í kvöld á þremur leikjum í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla. Selfoss, ÍR og Njarðvík unnu öll sigra á liðum í neðri deildum. Umferðin heldur áfram á morgun með 15 leikjum.

ÍR-ingar fengu KÁ í heimsókn á Hertz-völlinn í Seljahverfinu og unnu 3:1-sigur. ÍR leikur í 2. deildinni í sumar en Knattspyrnufélag Ásvalla er í 4. deildinni. Gunnar Óli Björgvinsson kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik og Axel Kári Vignisson bætti við marki áður en Sindri Örn Steinarsson fékk rautt spjald í liði gestanna fyrir hlé. Aron Hólm Júlíusson minnkaði muninn fyrir KÁ áður en Ísak Óli Helgason gerði út um leikinn.

Selfyssingar, sem þykja líklegir til afreka í 2. deildinni í sumar, unnu stórsigur á 4. deildarliði Snæfells, 5:0, á Jáverksvellinum á Selfossi. Guðmundur Tyrfingsson, 17 ára framherji, lék á als oddi og gerði fjögur af fimm mörkum heimamanna, þar af tvö úr vítaspyrnum, en Hólmarar skoruðu auk þess  sjálfsmark.

Þá vann Njarðvík 4:0-útisigur á Smára úr Kópavogi en sem fyrr var sigurliðið úr annarri deild og tapliðið úr fjórðu. Atli Freyr Ottesen Pálsson kom gestunum yfir eftir stundarfjórðung og þeir Bergþór Ingi Smárason og Andri Gíslason bættu við mörkum eftir hlé áður en Atli Freyr innsiglaði sigurinn með öðru marki sínu. Leikið var í Fagralundi.

Markaskorarar fengnir af urslit.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert