Verður skrítinn en skemmtilegur fótbolti

Pétur Pétursson, þjálfari Vals
Pétur Pétursson, þjálfari Vals mbl.is/Hari

Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu kvenna, ræddi við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag. Pétur ræddi þar meðal annars skrítið undirbúningstímabil vegna kórónuveirunnar og að erfitt sé fyrir alla þjálfara að vita hvernig Íslandsmótið muni þróast þegar það hefur göngu sína í næstu viku.

„Þetta hefur gengið ágætlega hjá flestum liðum en ég held að við vitum ekki hvernig liðin eru þegar við byrjum að spila,“ sagði Pétur, aðspurður um standið á Valsliðinu sem varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð. „Ég er ekki viss um það að neinn þjálfari á Ísland, sama hvað hann er klókur, viti hvernig liðið er eftir einn mánuð, með meiðsli og stífleika og allt þetta.“

Segir hann æfingaleiki undanfarið sýna það ágætlega að staðan er öðruvísi en undanfarin ár, m.a. vegna þess að mikið hefur verið skorað í þessum leikjum. „Eins og hefur komið í þessum leikjum, eins og í karlafótboltanum sem dæmi, það eru mikið af mörkum sem hefur ekkert verið í þessum leikjum undanfarin ár. Ég held að þetta sé rosalega skrítið allt saman en held samt einhvernveginn að þetta verði skemmtilegur fótbolti, ég hef trú á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert