Meistaraslagur á Meistaravöllum

KR-ingurinn Tobias Thomsen skýtur að marki Víkings í leik liðanna …
KR-ingurinn Tobias Thomsen skýtur að marki Víkings í leik liðanna á Meistaravöllum í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Formlegur upphafsleikur keppnistímabilsins í karlaflokki í íslenska fótboltanum fer fram í kvöld þegar Íslandsmeistarar KR fá bikarmeistara Víkings í heimsókn á Meistaravelli en viðureign liðanna í hinni árlegu Meistarakeppni KSÍ hefst klukkan 19.15.

KR vann Íslandsmótið í fyrra með nokkuð óvæntum yfirburðum og Víkingar hrepptu sinn fyrsta stóra titil í 28 ár þegar þeir sigruðu FH í úrslitaleik bikarkeppninnar.

KR-ingar  freista þess að vinna Meistarakeppni KSÍ í sjötta skipti. Þeir unnu hana á fyrsta ári hennar snemma árs 1969, en þá var Meistarakeppnin sett upp sem vetrarmót til undirbúnings fyrir liðin sem höfðu unnið sér sæti í Evrópukeppni. Þeir hafa síðan unnið 1995, 2003, 2012 og 2014 en þess ber að geta að keppnin lá niðri árin 1999-2002 á tíma sem KR-ingar hefðu átt tvisvar keppnisrétt í henni.

Víkingar hafa tvisvar unnið Meistarakeppnina, en það gerðu þeir árin 1982 og 1983, eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar tvö ár í röð, 1981 og 1982. Þeir léku á ný í keppninni 1992 sem Íslandsmeistarar en töpuðu fyrir bikarmeisturum Vals.

Valsmenn eru annars sigursælastir í keppninni og hafa unnið hana 11 sinnum, síðast þrjú ár í röð frá 2016 til 2018. Keflavík, Fram og FH koma næst með sex sigra hvert og KR getur því náð þeim með sigri í kvöld.

KR vann Víking í báðum leikjum liðanna á Íslandsmótinu í fyrra. Fyrst 1:0 í Fossvogi þar sem Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmarkið og Sölvi Geir Ottesen úr Víkingi fékk rauða spjaldið. Síðan 1:0 á Meistaravöllum þar sem Kristján Flóki Finnbogason skoraði sigurmarkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert