KA nældi í Guðmund Stein

Guðmundur Steinn Hafsteinsson í leik gegn KA í fyrra.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson í leik gegn KA í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

KA hefur nælt í miðherjann Guðmund Stein Hafsteinsson sem síðast lék með Stjörnunni á Íslandsmótinu í fyrra. 

Guðmundur Steinn er reyndur miðherji sem leikið hefur 128 leiki í efstu deild og skorað 31 mark. 

Steinn hélt til Þýskalands í vetur þar sem hann lék með Koblenz í D-deildinni og hafði ákveðið að dvelja fram á vor eins og fram kom á mbl.is. Hann var því ekki að flýta sér að finna sér íslenskt lið í vetur eftir að samningur hans við Stjörnuna rann út síðasta haust. 

KA greindi frá því á heimasíðu sinni í dag að Steinn hefði skrifað undir samning við félagið sem gildir út þetta keppnistímabil. 

Guðmundur Steinn verður 31 árs á sunnudaginn og uppalinn í Val en hefur einnig leikið með HK, Fram, ÍBV, Víkingi Ólafsvík og Stjörnunni hérlendis. Þá var hann um tíma hjá Notodden í Noregi. Á síðasta tímabili lék Guðmundur Steinn 18 leiki fyrir Stjörnuna í Pepsí Max deildinni og skoraði 3 mörk. 

Tilkoma Guðmundar Steins kemur sér væntanlega sérlega vel fyrir KA í sumar í ljósi þess að miðherji liðsins Elfar Árni Aðalsteinsson er á sjúkralistanum og spilar ekkert á komandi tímabili.

mbl.is