Geggjuð upplifun þrátt fyrir tap

Hákon Rafn kemur út úr markinu og handsamar boltann. Mikkelsen …
Hákon Rafn kemur út úr markinu og handsamar boltann. Mikkelsen er aðgangsharður eins og svo oft í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Gróttu, lék mjög vel á Kópavogsvellinum í kvöld í frumraun sinni í efstu deild, jafnvel þótt Breiðablik hafi unnið 3:0 í 1. umferð Pepsí Max-deildarinnar. 

Breiðablik braut ísinn eftir aðeins 19 mínútur og Seltirningar voru yfirspenntir eins og kannski búast mátti við. „Þetta var geggjuð upplifun þótt það sé leiðinlegt að tapa. Við vorum mjög spenntir fyrstu 20 mínúturnar og vorum lengi að koma okkur inn í leikinn enda var smá stress. Það sást í fyrri hálfleik en mér fannst okkur takast að halda boltanum aðeins betur í seinni hálfleik. Þegar við þorðum að halda boltanum þá gekk miklu betur. Við misstum mann út af með rautt spjald en mér fannst okkur samt takast ágætlega að spila eftir það,“ sagði Hákon þegar mbl.is ræddi við hann á Kópavogsvellinum í kvöld en hann er aðeins 19 ára gamall. 

Frumraun Gróttu í efstu deild var ekki auðveld þar sem Breiðablik hafnaði í 2. sæti 2018 og 2019. Næsta verkefni verður ekki auðveldara en þá mætir liðið Val sem varð Íslandsmeistari 2017 og 2018. 

„Valur á heimavelli er næsta verkefni og það verður einnig erfitt enda eru allir leikir erfiðir. Ég er bara mjög spenntur fyrir þeim leik. Þá verða menn vonandi búnir að ná sér betur niður og verða ekki eins stressaðir,“ sagði Hákon en gerði ekki mikið úr eigin frammistöðu í kvöld þegar blaðamaður færði það í tal. 

„Jú jú ég átti fínan leik en svona var þetta bara.“

Mönnum hljóp kapp í kinn í fyrri hálfleik og þá …
Mönnum hljóp kapp í kinn í fyrri hálfleik og þá fór gula spjaldið fjórum sinnum á loft. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert