„Brotið var mun utar“

Erlingur Agnarsson og Torfi Tímoteus Gunnarsson eigast við á Víkingsvellinum …
Erlingur Agnarsson og Torfi Tímoteus Gunnarsson eigast við á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, var ánægður með vinnusemina hjá sínum mönnum í kvöld en þeir sóttu stig í Víkina gegn bikarmeisturunum í 1. umferð Pepsí Max-deildarinnar. 

„Ég er ánægður með frammistöðu strákanna og vinnuframlagið. Menn lögðu allt í þetta. Ég er einnig ánægður með að við áttum í fullu tré í baráttunni við Víkinga. Mikill munur er á líkamsburðum þessara liða og því er ég sérstaklega ánægður með að eiga í fullu tré þar. Maður leggur auðvitað upp með að ná í þrjá stig en maður virðist öflugt stig á útivelli í fyrsta leik og gott að vera strax komnir á blað,“ sagði Ásmundur þegar mbl.is tók hann tali í Víkinni. 

Þótt Víkingar eigi marga snjalla leikmenn þá tókst þeim ekki að opna vörn Fjölnis að ráði og markskotin voru ekki mörg. „Já já og þeir skoruðu markið úr aukaspyrnu úr þröngu færi. Ég held reyndar að þeir hafi stolið einhverjum fimm metrum þegar þeir tóku aukaspyrnuna því brotið var mun utar. Þeir voru klókir að koma sér í þá stöðu. Þeir náðu að lauma boltanum inn í það skiptið en í opnum leik sköpuðu þeir sér ekki mikið. Við lokuðum því vel á þá en hjá okkur vantaði einnig herslumuninn að skapa okkur færi á móti. Sumt þurfum við að slípa til í okkar leik og bæta en margt sem maður getur verið ánægður með,“ sagði Ásmundur en markið sem hann vísar í kom úr aukaspyrnu sem var utan við vítateigshornið vinstra megin. 

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnismanna.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnismanna. mbl.is//Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert