Fetar í fótspor föður síns og leikur með HK

Stefan Alexander Ljubicic
Stefan Alexander Ljubicic Ljósmynd/aðsend

Knattspyrnumaðurinn Stefan Alexander Ljubicic er genginn til liðs við HK og hefur skrifað undir þriggja ára samning við Kópavogsfélagið. Frá þessu er greint á Facebook-síðu HK.

Stefan, sem er tvítugur framherji, var búinn að semja við Riga FC í Lettlandi en spilaði ekkert með liðinu þar sem keppnin þar í landi var ekki hafin þegar útbreiðsla kórónuveirunnar stöðvaði fótboltann.

Stefan á að baki 17 leiki með yngri landsliðum Íslands en hann lék þrjá leiki 15 ára með Keflavík í efstu deild áður en hann fór til Brighton þar sem hann lék með unglinga- og varaliðum í þrjú ár. Hann sneri aftur til Íslands síðasta sumar og lék átta leiki með Grindavík á lokaspretti úrvalsdeildarinnar þar sem hann skoraði eitt mark, einmitt gegn HK.

Hann er með tengsl við HK að því leyti að faðir hans Zoran Daníel Ljubicic hóf langan feril sinn í íslenska fótboltanum með HK og spilaði með liðinu árin 1992 og 1993.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert