Leiknir endurheimtir markaskorarann

Leiknir á Fáskrúðsfirði vann 2. deildina í fyrra.
Leiknir á Fáskrúðsfirði vann 2. deildina í fyrra. Ljósmynd/@Leiknirfask

Spænski knattspyrnumaðurinn Daniel Garcia hefur samið við Leikni á Fáskrúðsfirði á nýjan leik og mun leika með liðinu í 1. deild karla, Lengjudeildinni, á komandi keppnistímabili.

Garcia var lykilmaður hjá Leiknismönnum í fyrra þegar þeir unnu óvæntan sigur í 2. deildinni en hann skoraði þá 11 mörk og var í hópi markahæstu manna deildarinnar, og þá skoraði hann markið sem gerði út um leik liðsins við Fjarðabyggð í lokaumferðinni síðasta haust og gulltryggði Leikni sæti í 1. deild og sigur í 2. deildinni.

Leiknir mætir Fram í Reykjavík í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar á laugardaginn kemur.

mbl.is