Þorði ekki að sleppa mér aftur

Óskar Hrafn Þorvaldsson, til hægri, ásamt Oliver Sigurjónssyni, sem lagði …
Óskar Hrafn Þorvaldsson, til hægri, ásamt Oliver Sigurjónssyni, sem lagði upp mark Blika í kvöld. Ljósmynd/Breiðablik

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks í efstu deild karla í knattspyrnu var að vonum ánægður með stigin þrjú eftir sigur liðsins á Fylki, 1:0, í Árbænum í kvöld í annarri umferð Pepsi Max-deildarinnar.

„Spilamennskan var frekar kaflaskipt. Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik en það vantaði aðeins upp á taktinn í síðari hálfleik. En við skoruðum þá og það var svo sem ekkert til þess að kvarta yfir,“ sagði Óskar Hrafn við mbl.is í kvöld.

„Fylkismenn voru að spila vel í þessum leik. Auðvitað er það eina sem skiptir máli að vinna leiki. Við hefðum viljað hafa aðeins meiri stjórn á leiknum og fá meiri takt í spilamennskuna. En lífið er nú þannig að maður fær ekki alltaf allt. Við tökum þessum þremur stigum fagnandi,“ sagði Óskar.

Sigurmarkið kom upp úr hornspyrnu en það var varnarjaxlinn Damir Muminovic sem skoraði með skalla en fram að því gekk Blikum erfiðlega að opna vörn Fylkismanna. Fast leikatriði þurfti til.

Eru bara venjulegt fótboltalið

„Við erum auðvitað bara venjulegt fótboltalið. Við reynum að halda boltanum og reynum að hafa einhverja stjórn á því sem við erum að gera. Svo erum við með stóra og sterka menn, Damir og fleiri sem eru öflugir í loftinu. Það er gott að geta nýtt þá. Sérstaklega í svona leik þar sem eitt mark skiptir sköpum,“ segir Óskar.

Djair Parfitt-Williams sækir að Viktor Karli Einarssyni.
Djair Parfitt-Williams sækir að Viktor Karli Einarssyni. mbl.is/Sigurður

Aðspurður var hann afar ánægður með innkomu Kwame Quee í leikinn en hann virkaði eins og fersk vítaspínsprauta fyrir Kópavogsbúa.

„Kwame kemur alltaf hrikalega sterkur inn. Hann er frábær leikmaður, frábær karakter og frábær einstklingur sem ofboðslega gott er að hafa innan okkar raða. Hann hefur breytt tempóinu í þeim leikjum sem hann kemur inn á og vonandi verður áframhald á því,“ sagði Óskar.

Sex stig í sarpinn hjá Blikum eru staðreynd og því virðist allt vera samkvæmt áætlun hjá sterku liði Breiðabliks.

„Við settum okkur ekkert endilega einhverjar áætlanir. En sex stig eru sex stig og það mesta sem hægt er að taka úr þessum leikjum. Tveir sigrar og við höfum tvisar sinnum haldið hreinu. Það er gott hjá liði sem átti í basli með það í vetur. Ef einhver hefði boðið mér sex stig og markatölu 4:0 eftir tvo leiki hefði ég væntanlega tekið það og hlaupið í burtu,“ sagði Óskar Hrafn.

Sannarlega ekki ósáttur við Gísla

Skömmu áður en Blikar skoraði mark sitt kom Höskuldur Gunnlaugsson boltanum í netið. Dæmd var hendi á hann en Óskar fagnaði á þeim tímapunkti ógurlega eins og allt Blikaliðið. Annað var uppi á teningnum er Breiðablik komst raunverulega yfir og svo virtist vera sem Óskar hefði lesið Gísla Eyjólfssyni pistilinn. Svo var ekki.

„Nei. Ég var sannarlega ekki ósattur við Gísla. Ég fagnaði svo mikið í fyrra markinu sem var tekið af okkur að ég þorði eiginlega ekki að sleppa mér þarna aftur. Ég taldi það best að fagna óvarlega. Ég var bara að spjalla við Gísla um leikinn almennt og er mjög ánægður með hann," sagði Óskar.

Vantaði meiri stöðulegan aga

En hvað fannst honum helst skorta í leik Breiðabliks í kvöld?

Mér fannst aðeins skorta upp á stöðuglegan aga. Að halda betur stöðum og vera þolinmóðari og taka eilítið betri ákvarðanir á síðasta þriðjungnum. Það var kannski það helsta. Við hefðum svo kannski mátt vera aðeins grimmari en nú er ég sennilega búinn að telja upp allt sem þú þarft að gera til þess að vera góður í fótbolta. En mér fannst við geta gert aðeins betur á flestum sviðum. En auðvitað spilar þú ekki betur en andstæðingurinn leyfir og Fylkismenn voru flottir í dag,“ sagði Óskar Hrafn.

mbl.is