Þriðja þrenna Danans – fór upp fyrir Gary Martin

Patrick Pedersen hefur skorað 58 mörk í deildinni.
Patrick Pedersen hefur skorað 58 mörk í deildinni. mbl.is/Árni Sæberg

Daninn Patrick Pedersen skoraði í kvöld sína þriðju þrennu í úrvalsdeild karla í fótbolta þegar Valsmenn lögðu HK að velli í Kórnum, 4:0.

Pedersen skoraði áður tvær þrennur fyrir Valsmenn árið 2018, gegn Grindavík í 4:0-sigri og gegn ÍBV í 5:1-sigri.

Enginn Valsmaður hefur skorað þrennu í deildinni, annar en Pedersen, frá því Kristinn Freyr Sigurðsson gerði þrjú mörk í 6:4-sigri á Skagamönnum árið 2013.

Með þrennunni í kvöld er Pedersen orðinn næstmarkahæsti erlendi leikmaðurinn í úrvalsdeild karla frá upphafi. Hann er nú kominn með 58 mörk og fór upp fyrir enska framherjann Gary Martin sem hefur gert 57 mörk í deildinni en spilar nú með ÍBV í 1. deild. Steven Lennon er markahæstur erlendu leikmannanna með 73 mörk.

Þrennuna í kvöld skoraði Pedersen á aðeins 19 mínútum en hann hefur samt gert betur en það. Þrennuna gegn ÍBV árið 2018 skoraði Daninn á aðeins níu mínútum.

Pedersen er fimmti erlendi leikmaðurinn sem nær að skora þrjár þrennur í deildinni. Fyrstur til þess var Mihajlo Bibercic með KR og ÍA, þá Rastislav Lazorik með Breiðabliki og Leiftri, Allan Borgvardt með FH, Gary Martin með KR og ÍBV og nú Pedersen með Val.

mbl.is