„Bara áfram gakk“

Pétur Theódór Árnason og Ásgeir Eyþórsson í baráttu í Árbænum …
Pétur Theódór Árnason og Ásgeir Eyþórsson í baráttu í Árbænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var þungt hljóðið í Pétri Theódóri Árnasyni, leikmanni Gróttu, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum eftir 2:0-tap gegn Fylki í þriðju umferð Pepsi Max-deildar karla í Árbænum í kvöld. 

Grótta er stigalaus á botni deildarinnar eftir leik kvöldsins og hefur liðið enn ekki náð að skora sitt fyrsta mark í efstu deild. 

Pétur Theódór segir í samtali við mbl.is. að sér hafi þótt leikurinn fara vel af stað. 

„Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik en við náðum ekki að bíta nógu vel. Svo kemur vítið í seinni hálfleik sem slær okkur út af laginu,“ segir Pétur, en Fylkismenn skoruðu úr víti á 61. mínútu.

Gróttumenn fengu einnig víti á 85. mínútu eftir samstuð Ásgeirs Eyþórs og Ágústs Freys en Óliver Dagur Thorlacius brenndi af vítinu. Aðspurður hvort honum hafi fundist vítið réttur dómur segist Pétur ekki geta sagt til um það.

„Ég sá þetta bara ekki alveg nógu vel. En það sem skiptir máli er að við nýttum það ekki. Og við skoðuðum fleiri færi sem við hefðum átt að nýta betur líka. Þetta var mjög fúlt.“ 

Pétur segist ekki hafa áhyggjur af framhaldinu í sumar. 

„Við höldum bara áfram. Engar afsakanir. Þetta er búið að vera erfið byrjun. En bara áfram gakk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert