Börn hætti að sækja boltann

Bolta strákur á Kaplakrikavelli.
Bolta strákur á Kaplakrikavelli. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Knattspyrnusamband Íslands hefur lagt það til við aðildarfélögin að hætt verði að nota svokallaða boltakrakka til að sækja knöttinn á leikjum í meistaraflokki karla og kvenna.

Hefð er fyrir því að ungir knattspyrnuiðkendur fái það starf að sækja boltann þegar hann fer út fyrir völlinn á leikjum í efstu deildum en eftir nýja smitöldu kórónuveirunnar, þar sem nokkrir leikmenn greindust með veiruna og fjölmargir eru í sóttkví, hefur KSÍ lagt til að leggja þetta niður tímabundið.

Þess í stað eigi að koma tíu boltum fyrir í kringum leikvöllinn sem tveir einstaklingar, 16 ára eða eldri, sjái um og gæti að öllum sóttvörnum við meðhöndlun á þeim. Búið er að fresta mörgum leikjum í efstu deild karla og kvenna eftir að smit greindist í þremur liðum. Breiðabliki og Fylki í kvennadeildinni og Stjörnunni í karladeildinni.

mbl.is