Fótboltaliðunum boðið í skimun

HK og Valur mættust í gær og í bæði lið …
HK og Valur mættust í gær og í bæði lið vantaði einn leikmann vegna sóttkvíjar. mbl.is/Íris

Liðunum í úrvalsdeildum karla og kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildunum, hefur verið boðið í skimun fyrir kórónuveirunni næstu daga hjá Íslenskri erfðagreiningu en sóttvarnalæknir, Almannavarnir og Íslensk erfðagreining standa að þessu í samstarfi við Landspítalann.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hefur sent félögunum tilkynningu þar sem fram kemur að Íslensk erfðagreining muni sjá um framkvæmd sýnatöku og greiningu sýnanna.

Leikmönnum og starfsfólki liðanna er boðið í skimunina ásamt 2. flokki sömu liða, sem og starfsfólki íþróttamannvirkja liðanna.

„Ástæðan fyrir því að þessi hópur er valinn er aldursdreifing og að dæmin sanna að þetta er aldur sem á samskipti við marga. Niðurstöður úr þessari skimun verða því mjög gagnlegar,“ segir m.a. í tilkynningu til félaganna.

Smit hafa komið upp hjá leikmönnum í kvennaliði Breiðabliks og karlaliði Stjörnunnar undanfarna daga og af þeim sökum er búið að fresta nokkrum leikjum á Íslandsmótinu þar sem liðin hafa farið í sóttkví, ásamt kvennaliði KR sem var andstæðingur Breiðabliks í vikunni. Þá kom í gær upp smit hjá kvennaliði Fylkis en ekki hefur verið frestað af þeim sökum enn sem komið er.

mbl.is