Fylkismenn unnu botnslaginn

Fylkismenn fagna Valdimar Þór Ingimundarsyni eftir að hann skoraði seinna …
Fylkismenn fagna Valdimar Þór Ingimundarsyni eftir að hann skoraði seinna mark sitt og liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkismenn höfðu betur í botnslag gegn Gróttu í Árbænum í kvöld í þriðju umferð Pepsi Max deildar karla.

Fylkismenn fengu sín fyrstu stig í 2:0 sigri á meðan Grótta situr stigalaus eftir með sárt ennið á botni deildarinnar.

Valdimar Þór Ingimundarson skoraði bæði mörk Fylkis, annað úr vítaspyrnu, og átti heilt yfir góðan leik.

Leikurinn var nokkuð tíðindalaus fyrst um sinn. Lítið líf var í leiknum og hvorugt liðið gerði sig líklegt til að taka forystuna. Gróttumenn skoruðu á 21. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Aron Snær Friðriksson virtist þó óöruggur í marki Fylkismanna og var óákveðinn á boltann. Gróttumenn fengu gefins tvö til þrjú ágætis tækifæri en náðu ekki að nýta sér þau. Það fór raunar ekkert fyrir Gróttumönnum nánast allan leikinn. Fylkismenn byrjuðu leikinn ekki af krafti en þegar þeir svo tóku við sér í síðari hluta fyrri hálfleiks var mikill gæðamunur á liðunum. 

Alvarlegt atvik varð við upphaf síðari hálfleiks þegar Helgi Valur Daníelsson var fluttur af velli í sjúkrabíl eftir samstuð við Sigurvin Reynisson. Samkvæmt heimildum mbl.is er Helgi líklega tvífótbrotinn og tímabilið líklegast búið fyrir Helga. Helgi Valur verður 39 á árinu og því ekki útilokað að þetta hafi verið síðasti leikur Helga. 

Fylkir fékk vítaspyrnu  á 61. mínútu eftir afleita ákvörðun Hákons Rafns í markinu og Valdimar Þór skoraði auðveldlega. Við markið færðist aukið líf yfir lið Fylkis sem réð lögum og lofum á vellinum það sem eftir var leiks. Valdimar bætti við seinna marki Fylkis á 73. mínútu og Fylkismenn virtust ekki líklegir til að gefa eftir. 

Grótta fékk vítaspyrnueftir samstuð Ásgeirs Eyþórs og Ágúst Freys í teig Fylkismanna á 85 mínútu en Óliver Dagur Thorlacius brenndi af vítinu, laust skot og Aron Snær valdi rétt horn í marki Fylkis. 

Fylkismenn héldu áfram að sækja það sem af var leiks. Ásgeir Eyþórs kom boltanum í netið í uppbótatíma en markið var dæmt af. Dómarinn taldi Ásgeir hafa brotið á Hákoni Rafni en það var í það minnsta ekki augljóst brot. 

Þrátt fyrir að hafa verið lengi af stað fyrsta hálftímann voru yfirburðir Fylkis miklir í Árbænum í kvöld og sigurinn verðskuldaður. Gróttumenn líta þó ekki vel út, hafa enn ekki skorað mark í efstu deild og hafa varla veitt mótherjum sínum alvöru mótspyrnu það sem af er móti. 

Um var að ræða botnslag, hér strax í þriðju umferð, en Fylkir og Grótta voru bæði án stiga eftir tvo leiki. Fylkismenn töpuðu gegn Stjörnunni og Breiðabliki en Grótta gegn Blikum og Val. Þá eiga nýliðarnir frá Seltjarnarnesi enn eftir að skora sitt fyrsta mark í efstu deild.

Fylkir 2:0 Grótta opna loka
90. mín. Daði Ólafsson (Fylkir) á skot framhjá Daði með gott skot úr aukaspyrnu sem fer yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert