Munum ekki þvinga einhvern til að mæta til leiks

Úr leik Leiknis og Vestra í Lengjudeildinni í gær.
Úr leik Leiknis og Vestra í Lengjudeildinni í gær. mbl.is/Íris

„Þetta er ekki að koma bara upp í knattspyrnunni, við sjáum það í Evrópu að smitum er víða að fjölga aftur, því miður,“ sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í viðtali á Rás 2 í morgun en hún var þar að ræða kórónuveirusmit sem hafa komið upp í efstu deildum í fótboltanum hérlendis nýlega. „Knattspyrnan er bara þverskurður af samfélaginu og þetta á ekkert að koma á óvart.“

Upp hafa komið smit hjá kvennaliðum Breiðabliks og Fylkis og karlaliði Stjörnunnar og hefur það riðlað mótahaldinu nokkuð en Klara segir sambandið fylgjast vel með stöðu mála.

„Mótanefnd kemur saman á eftir, þau hafa fylgst vel með ástandinu og gripið til þeirra ráðstafana sem hefur þurft. Við förum fljótlega að endurraða leikjum. Það hjálpar okkur í Pepsi Max-deild kvenna að það var verið að staðfesta leikdag í Evrópukeppni félagsliða. Þar vorum við að græða viku, ef svo má segja. Þar höfum við svigrúm.“

Þá ræddi hún þá ákvörðun tveggja leikmanna Þórs að taka ekki þátt í leik liðsins gegn Leikni á Fáskrúðsfirði í gær eftir að Leiknismenn spiluðu nýlega bikarleik gegn Stjörnunni þar sem upp komst smit.

„Í leik Stjörnunnar og Leiknis F. var umræddur leikmaður ekki á skýrslu en þetta er eins og með allt annað, við þvingum engan til að spila fótbolta. Það er ekki í vinnu hjá okkur heldur hjá sínum félögum og þetta eru mál sem þurfa að skoða innan hvers félags.“

„Við munum ekki þvinga einhvern til að mæta til leiks, það er alveg kýrskýrt,“ sagði Klara Bjartmarz.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert