Ólafur: Helgi líklegast tvífótbrotinn

Ólafur Ingi Skúlason stekkur hæst ásamt félaga sínum Ásgeiri Eyþórssoni …
Ólafur Ingi Skúlason stekkur hæst ásamt félaga sínum Ásgeiri Eyþórssoni í leiknum við Gróttu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ingi Skúlason, spilandi aðstoðarþjálfari Fylkis, sagðist vera þokkalega ánægður með frammistöðu Fylkismanna eftir 2:0-sigur á Gróttu í Árbænum í kvöld  þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.

Fylkir fékk fyrstu stig sumarsins með sigrinum en Valdimar Þór Ingimundarson skoraði bæði mörk liðsins. 

„Það voru svosem ágætis kaflar inn á milli hjá okkur en við duttum aðeins niður þess á milli, náðum ekki að refsa þeim eins og við hefðum getað gert. Við sköpuðum fullt af góðum stöðum á vellinum en náðum ekki að gera neitt úr þeim þannig að úr varð hörkuleikur,“ segir Ólafur. 

Al­var­legt at­vik varð við upp­haf síðari hálfleiks þegar Helgi Val­ur Daní­els­son var flutt­ur af velli í sjúkra­bíl eft­ir samstuð við Sig­ur­vin Reyn­is­son. Ólafur segir meiðsli Helga ekki líta vel út. 

„Þetta er líklega tvöfalt beinbrot og maður er bara í sárum yfir því. Helgi er einn af mínum bestu vinum í lífinu og liðsfélagi og þetta setur svartan blett á þennan leik í dag. Það er ákveðin sárabót að hafa unnið leikinn er hugurinn er að sjálfsögðu hjá Helga og maður óskar honum bara skjóts bata,“ segir Helgi. 

„Þetta var bara svona boltinn-á-milli-tækling sem veldur þessu. Helgi fór bara allur í þetta og boltinn er á milli. Þetta var ekkert brot eða neitt ljótt, bara óheppni, en það er alltaf erfitt að horfa upp á svona,“ segir Ólafur. 

Sam Hewson lék ekki með liði Fylkis í kvöld en að sögn Ólafs er hann að jafna sig af smávægilegum meiðslum. Hann vonast til að Hewson komist aftur í stand sem fyrst og vonandi fyrir leik liðsins gegn Fjölni á laugardaginn. 

Heilt yfir segist Ólafur vera ánægður með það hvernig mótið hafi farið af stað. 

„Ég var ánægður með Breiðabliksleikinn. Fyrsti leikurinn gegn Stjörnunni var ekki á pari, við vitum að við getum gert betur og Blikaleikurinn var betri hjá okkur en það var mikilvægt að komast af stað og ná í þrjú stig í kvöld. Það er aldrei þægilegt að byrja á að tapa fyrstu tveimur og við vorum smá upp við vegg í dag, en við náðum þremur stigum og höfum heilt yfir varist vel. Gróttumenn eiga hrós skilið fyrir að stríða okkur hérna í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert