Þjálfari FH ánægður með „frábæra“ dómgæslu

Daníel Hafsteinsson og Kári Árnason í baráttunni á Víkingsvelli í …
Daníel Hafsteinsson og Kári Árnason í baráttunni á Víkingsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Slæmt tap og verðskuldað. Víkingarnir voru mun betri en við, sérstaklega í fyrri hálfleiknum,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, sem talaði tæpitungulaust um frammistöðu sinna manna í 4:1-tapi gegn Víkingum í Fossvoginum í þriðju umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2020/06/29/vikingar_foru_illa_med_fh/

„Við erum á eftir þeim í öllum aðgerðum í fyrri hálfleik, förum ekki í pressu né návígi. Svo var staðan orðin þung í hálfleik,“ sagði Ólafur við mbl.is en Víkingar voru 3:0 yfir í hálfleik. Þriðja markið var afar umdeilt en Óttar Magnús Karlsson skoraði það í uppbótartíma hálfleiksins með því að rúlla boltanum í tómt net FH-inga, beint úr aukaspyrnu, á meðan gestirnir voru enn að stilla sér upp fyrir leikatriðið.

FH-ingar og Ólafur sjálfur brugðust illa við á hliðarlínunni í kjölfarið en hann var búinn að skipta um skoðun í leikslok. „Frábær dómgæsla, að leyfa leiknum að fljóta, og Pétur er þá að gefa ákveðið fordæmi um að það megi taka aukaspyrnur hratt. Ég fagna því,“ sagði Ólafur og sitt sýnist hverjum um hvað megi lesa á milli línanna þar.

Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson
mbl.is