„Veit ekki einu sinni hvort ég hugsaði“

Óttar Magnús Karlsson í leiknum gegn FH í kvöld.
Óttar Magnús Karlsson í leiknum gegn FH í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það mátti sjá að Víkingum var létt í Fossvoginum í kvöld eftir að þeir unnu sinn fyrsta sigur á Íslandsmótinu og það með glæsibrag er þeir lögðu FH að velli 4:1 á Víkingsvellinum í þriðju umferðinni. Óttar Magnús Karlsson átti stórleik fyrir heimamenn og skoraði þrennu en hann viðurkenndi að sér væri létt að ná fyrsta sigrinum í samtali við mbl.is strax að leik loknum.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2020/06/29/vikingar_foru_illa_med_fh/

„Það er smá léttir að ná fyrsta sigrinum, það var gaman að spila og við vorum góðir,“ sagði Óttar, sem er nú kominn með fjögur mörk í þremur leikjum. Víkingar gerðu tvö jafntefli í fyrstu leikjum, gegn Fjölni og KA. „Við vorum kannski að reyna að þvinga hlutina í fyrstu tveimur leikjunum en þetta small saman í kvöld. Það var kærkomið að landa þremur punktum og fá gleði og flæði í spilið.“

Óttar skoraði skrautlegt mark skömmu fyrir hálfleik þegar hann var fljótur að hugsa, tók aukaspyrnu hratt og rúllaði boltanum í autt netið á meðan leikmenn FH voru annars hugar. Gestirnir voru ekki sáttir en Pétur Guðmundsson dómari taldi markið gott og gilt. Óttar segist hins vegar ekki hafa verið fljótur að hugsa, hann hafi ekki einu sinni hugsað málið áður en hann lét vaða.

„Ég veit ekki einu sinni hvort ég hugsaði, ég bara áttaði mig á aðstæðum og þetta gerðist. Yfirleitt þegar aukaspyrnur eru á hættulegum stað tekur dómarinn það fram að við eigum að bíða eftir flautinu en það var ekki svoleiðis í kvöld.“

Að lokum spurði blaðamaður hvað Óttar ætlaði að skora mikið í sumar og var hann snöggur að svara. „Mikið!“ sagði Óttar og hló við, „en ég hef enga tölu, ég ætla bara að láta verkin tala.“

mbl.is