Arnar getur farið af stað í 2. deildinni

Arnar Már Guðjónsson sýnir skemmtileg tilþrif í leik gegn Breiðabliki …
Arnar Már Guðjónsson sýnir skemmtileg tilþrif í leik gegn Breiðabliki á síðasta tímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Már Guðjónsson, miðjumaðurinn reyndi í knattspyrnuliði Skagamanna, byrjar væntanlega að spila fljótlega með varaliði þeirra, Kára, í 2. deildinni.

Arnar hafði tímabundin félagaskipti yfir í Kára í dag en ÍA getur kallað hann til baka þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður aftur í ágústmánuði.

Arnar er reyndasti leikmaður ÍA, 33 ára  gamall og á að baki 225 leiki í tveimur efstu deildunum, en hann sleit krossband í hné í lok júlí 2019 og hefur verið frá keppni síðan.

Með Kára leika margir ungir leikmenn úr ÍA en einnig fyrrverandi lykilmenn félagsins eins og Jón Vilhelm Ákason, Einar Logi Einarsson, Andri Júlíusson og Garðar Gunnlaugsson. Káramenn eru með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í 2. deildinni.

mbl.is