KR lánar framherja til nágrannanna

Björgvin Stefánsson hefur glímt við meiðsli undanfarið.
Björgvin Stefánsson hefur glímt við meiðsli undanfarið. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar hafa lánað framherjann Björgvin Stefánsson til nágranna sinna í KV og hann getur því spilað með þeim næstu vikurnar í 3. deildinni í knattspyrnu.

Björgvin hefur ekkert leikið með KR-ingum á þessu tímabili vegna meiðsla en þeir geta kallað hann til baka í seinni félagaskiptaglugganum í ágúst. Hann gæti því spilað í það minnsta sjö leiki með KV sem er með þrjú stig eftir tvær fyrstu umferðirnar í 3. deildinni og þykir líklegt til að berjast um að vinna sig upp í 2. deildina. 

Björgvin þarf ekki að fara langt því KV er með sinn heimavöll á KR-svæðinu og spilar á gervigrasvelli Vesturbæinga. Í marki KV stendur Sindri Snær Jensson sem hefur verið varamarkvörður KR-inga undanfarin ár, og þá leika með liðinu m.a. þeir Grétar Sigfinnur Sigurðarson og Ingólfur Sigurðsson. Þjálfari KV er Sigurvin Ólafsson.

mbl.is