Meistararnir áfram með fullt hús

Valskonur fagna fyrsta marki leiksins.
Valskonur fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Íslandsmeistarar Vals eru enn með fullt hús stiga í Pepsi Max-deild kvenna eftir 3:1-sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV er með þrjú stig eftir fjóra leiki. 

Elín Metta Jensen kom Val yfir strax á fimmtu mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. Elín skoraði annað markið sitt og annað mark Vals á 48. mínútu, en Grace Hancock mininkaði muninn fyrir ÍBV á 55. mínútu. 

Valskonur áttu hinsvegar lokaorðið því Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði þriðja mark Vals á 64. mínútu með sínu fyrsta marki í efstu deild og þar við sat. 

Fyrirfram var búist við því að Valskonur myndu vinna nokkuð þægilegan sigur í Vestmannaeyjum og stefndi allt í það þegar Elín Metta skoraði eftir einungis 5 mínútna leik. Það varð alls ekki raunin og spiluðu Eyjakonur á löngum köflum mjög vel í leiknum og sýndu þær miklar framfarir frá síðustu tveimur leikjum gegn Þór/KA og Stjörnunni þar sem að þær spiluðu alls ekki vel.

Miyha Watford og Olga Sevcova framherjar ÍBV voru mjög sprækar í leiknum og náðu að koma sér oft á tíðum í ákjósanlegar stöður en náðu ekki að binda endahnútinn á nokkrar mjög góðar sóknir.

Það sem skóp sigurinn hjá Valskonum í þessum leik að þær skoruðu í upphafi beggja hálfleika og lögðu gruninn af góðum sigri. Þær sýndu mikinn styrk í því að klára leikinn á erfiðum útivelli og eru vel að sigrinum komnar.

Leikurinn var góð skemmtun og mörg færi á báða bóga. Sandra Sigurðardóttir og Guðný Geirsdóttir, markmenn liðana, áttu báðar glimrandi leik og vörðu þær báðar nokkru sinnum í leiknum alveg frábærlega. 

ÍBV 1:3 Valur opna loka
90. mín. Ída Marín Hermannsdóttir (Valur) kemur inn á
mbl.is