Það var kominn skjálfti í þær

Andri Ólafsson á hliðarlínunni í kvöld.
Andri Ólafsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Enn og aftur bara svekktur, ég er svekktur að fá á mig mark á fyrstu 5 mínútunum í fyrri hálfleik og fyrstu 2 mínútum í seinni hálfleik,“ sagði Andri Ólafsson, þjálfari ÍBV, þegar liðið hans tapaði 3:1 fyrir Val á Hásteinsvelli í kvöld í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta.

„Við sköpuðum meira en nóg af færum til þess að fá eitthvað útúr þessum leik. Þetta var geggjað mark hjá Elínu Mettu, en við unnum okkur svo inn í leikinn og þegar leið á fyrri hálfleikinn fannst mér við hreinlega betri og líklegri en svo byrjar seinni hálfleikurinn bara aftur með því að hún skorar.“

Elín Metta skoraði á upphafsmínútunum í báðum hálfleikum sem lögðu gruninn af sigrinum, en Eyjakonur áttu sín færi en færanýtingin ekki góð.

„Við sköpuðum heling af færum, það er margt jákvætt í þessum leik og það er svekkjandi að láta ekki aðeins á þær reyna því það var kominn skjálfti í þær þegar við minnkum muninn í 2:1. En þær ná að setja mark, en við létum reyna á þær í lokin og við fengum fullt af færum eins og þær en ég er bara svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr þessu.“

Eyjakonur eru með 3 stig eftir fyrstu fjóra leiki tímabilsins en eini sigurleikur ÍBV kom í fyrstu umferð. Eyjakonur sýndu miklar framfarir í þessum leik miða við leikina á undan sem hafa tapast.

„Já þetta var fínn leikur í dag en hann telur bara ekki neitt. Ég skal frekar spila 10 lélega leiki og fá 30 stig heldur en 10 góða og fá 0 stig, það er alveg á hreinu“ sagði Andri að lokum.

mbl.is