Þórsarar með fullt hús á toppnum

Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórs, með boltann í kvöld. Oliver …
Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórs, með boltann í kvöld. Oliver Heiðarsson úr Þrótti eltir hann. mbl.is/Arnþór

Þór Akureyri er með fullt hús stiga á toppi Lengjudeildar karla í fótbolta eftir 2:0-útisigur á Þrótti á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í kvöld. 

Spánverjinn Álvaro Montejo kom Þór yfir á 13. mínútu og félagi hans í framlínunni, Jóhann Helgi Hannesson, bætti við marki á 39. mínútu og var staðan í hálfleik 2:0. 

Þrótturum tókst ekki að minnka muninn í seinni hálfleik og Þórsarar fögnuðu þremur stigum í þriðja skipti í þremur leikjum.

Þróttur er á botninum og án stiga eftir þrjá leiki og stefnir í fallbaráttu annað tímabilið í röð í Laugardalnum, en Þróttur hélt sér uppi í síðustu umferðinni síðasta sumar. 

mbl.is