Valdi Stjörnuna eftir darraðadans

Guðjón Pétur Lýðsson í baráttunni við Gunnar Þorsteinsson á Kópavogsvelli …
Guðjón Pétur Lýðsson í baráttunni við Gunnar Þorsteinsson á Kópavogsvelli síðasta sumar. mbl.is/Hari

Knattspyrnukappinn Guðjón Pétur Lýðsson gekk til liðs við Stjörnuna á lokadegi félagaskiptagluggans. Guðjón kemur til félagsins frá Breiðabliki en hann er uppalinn á Álftanesi og steig sín fyrstu skref með meistaraflokki Stjörnunnar árið 2007. Guðjón er orðinn 32 ára gamall en hann hefur meðal annars leikið með Val, Breiðabliki og Haukum í efstu deild.

Hann gekk til liðs við Breðablik fyrir síðasta tímabil þegar Ágúst Gylfason var þjálfari liðsins en hann hefur færst aftar í goggunarröðina eftir að Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við stjórnartaumunum hjá Blikum eftir síðasta tímabil. Guðjón Pétur á að baki 203 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 45 mörk en hann ræddi skiptin við Valtý Björn Valtýsson í útvarpsþættinum Mín Skoðun sem má finna á Spotify.

„Ég fékk að heyra það frá Óskari Hrafni eftir leikinn gegn Fjölni að það væru nokkur lið sem hefðu áhuga á því að fá mig,“ sagði Guðjón Pétur. „Það kom auðvitað aðeins flatt upp á mig og ég ákvað að sofa bara á því yfir nóttina. Daginn eftir tek ég svo samtal við Óskar um stöðu mína hjá liðinu og eftir það samtal ákvað ég að sjá hvað væri í boði fyrir mig þarna úti.

Maður var svo kominn í viðræður við Víkinga, Stjörnuna og Fylki og eftir mikinn darraðardans ákvað ég að lokum að ganga til liðs við Stjörnuna. Fyrstu meistaraflokksleikirnir mínir voru með Stjörnunni og það er rosa gott að vera kominn aftur í félagið, ég neita því ekki. Ég á marga vini hérna og þetta er fyrst og fremst spennandi,“ sagði Guðjón Pétur meðal annars.

mbl.is