ÍA niðurlægði Valsmenn á Hlíðarenda

Stefán Teitur Þórðarson í baráttunni við Sigurð Egil Lárusson á …
Stefán Teitur Þórðarson í baráttunni við Sigurð Egil Lárusson á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Viktor Jónsson átti stórleik fyrir ÍA þegar liðið heimsótti Val í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-völlinn á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með 4:1-sigri ÍA en Viktor skoraði fyrsta mark leiksins ásamt því að leggja upp þrjú mörk til viðbótar fyrir liðsfélaga sína.

Títtnefndur Viktor kom ÍA yfir strax á 4. mínútu með frábæru skoti, rétt utan teigs, og staðan orðin 1:0. Tryggvi Hrafn Haraldsson tvöfaldaði forystu ÍA á 29. mínútu eftir frábæran einleik en hann fíflaði þá Orra Sigurð Ómarsson og Birki Má Sævarsson áður en hann renndi boltanum fram hjá Hannesi Þór Halldórssyni í marki Valsmanna og staðan orðin 2:0.

Bjarki Steinn Bjarkason bætti við þriðja marki Skagamanna af stuttu færi úr teignum á 38. mínútu eftir laglegan sprett hjá Viktori upp hægri kantinn og staðan því 3:0 í hálfleik. Patrick Pedersen minnkaði muninn fyrir Valsmenn í upphafi síðari hálfleiks með skoti utan teigs sem fór af varnarmanni og þaðan í netið.

Það var hins vegar Steinar Þorsteinsson sem innsiglaði sigur Skagamanna með afar fallegu marki marki á 73. mínútu en Steinar fór illa með þrjá varnarmenn Vals áður en hann renndi boltanum undir Hannes Þór í marki Valsmanna. Hannes var í boltanum en tókst ekki að halda honum og Skagamenn fögnuðu sanngjörnum sigri.

ÍA fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 6 stig en Valsmenn eru í fjórða sætinu, einnig með 6 stig, en með lakari markatölu.

Patrick Pedersen og Sindri Snær Magnússon eigast við á Hlíðarenda.
Patrick Pedersen og Sindri Snær Magnússon eigast við á Hlíðarenda. mbl.is/Arnþór Birkisson

Klókir Skagamenn

Skagamenn voru afar klókir í fyrri hálfleik. Þeir pressuðu vörn Valsmanna á hárréttum augnablikum og þegar að þeir unnu boltann voru þeir beinskeyttir og sóttu hratt á ráðþrota vörn Valsmanna sem réð ekkert við hraða sóknarmenn ÍA. Í seinni hálfleik var sama upp á teningnum og þótt þeir hafi bara skorað eitt mark í síðari hálfleik fengu þeir færin til þess að skora fleiri.

Þá voru þeir mun klókari í uppspili sínu en í fyrri leikjum sínum í sumar. Vissulega reyndu þeir að spila út frá aftasta manni en þegar að það var ekki í boði þá var boltanum bara lúðrað fram. Þegar að þú ert með markmann eins og Árna Snæ Ólafsson í markinu er það oft fínasta taktík enda einn af sparkvissari mönnum deildarinnar.

Sóknarleikur Skagamanna var líka miklu hnitmiðaðri en í fyrstu leikjum sumarsins. Fremstu þrír leikmenn liðsins vissu upp á hár í hvaða svæði þeir áttu að hlaupa og hvenær og Valsmenn vissu oft á tíðum ekki sitt rjúkandi ráð. Skagamenn duttu aðeins í taktíkina sem skilaði þeim einhverjum stigum síðasta sumar og það virðist bara henta þeim nokkuð vel blanda þessu aðeins saman.

Aron Bjarnason úr Val og Aron Kristófer Lárusson hjá ÍA …
Aron Bjarnason úr Val og Aron Kristófer Lárusson hjá ÍA eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór

Hörmulegur varnarleikur

Varnarleikur Valsmanna í kvöld verður seint talinn til útflutnings. Einstaklingsmistök kostuðu liðið grimmilega í kvöld en eins og Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, komst að orði í leikslok þá munu öll lið deildarinnar skora fjögur mörk á þá í sumar ef þeir ætla að verjast eins og jólasveinar. Þá var ekkert að frétta af uppspili liðsins.

Valsmenn geta hins vegar huggað sig við það að þeir sköpuðu sér helling af færum, sérstaklega í fyrri hálfleik og það má alveg segja sem svo að leikurinn hafi verið furðulegur. Fótbolti snýst hins vegar fyrst og fremst um að nýta færin sín og það gerðu leikmenn ÍA á meðan Valsmenn voru úti á túni fyrir framan markið.

Þá gerði Heimir Guðjónsson þrefalda skiptingu á 57. mínútu sem skilaði liðinu engu. Þeir leikmenn sem komu inn á komust aldrei í takt við leikinn og voru í vandræðum með að komast í boltann. Valsmenn voru líklegir til þess að koma sér inn í leikinn á þessum tímapunkti, eftir að hafa minnkað muninn í 3:1, en skiptingin gjörsamlega drap allt tempó í spilinu og eftirleikur ÍA var auðveldur.

Valur 1:4 ÍA opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert