Vörðust eins og jólasveinar

Aron Bjarnason og Aron Kristófer Lárusson eigast við á Hlíðarenda …
Aron Bjarnason og Aron Kristófer Lárusson eigast við á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég er hálf gáttaður eftir þennan leik,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, í samtali við mbl.is eftir 4:1-tap liðsins gegn ÍA í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

Patrick Pedersen skoraði eina mark Valsmanna í upphafi síðari hálfleik en Viktor Jónsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Bjarki Steinn Bjarkason og Steinar Þorsteinsson skoruðu mörk Skagamanna í leiknum.

„Mér fannst þetta furðulegur leikur og að vera 3:0-undir í hálfleik er stórslys á heimavelli. Mér finnst þessi úrslit ekki gefa rétta mynd af leiknum. Við komum af krafti inn í leikinn, pressum þá og fáum fullt af færum. Heilt yfir fengum við frábær færi í fyrri hálfleik sem við klikkum á, á meðan þeir refsa okkur fyrir hvert einasta færi sem þeir fá.

Við höfðum trú á því að við gætum komið til baka í seinni hálfleik og jafnvel jafnað eða unnið leikinn. Við náum að minnka muninn sem gaf okur aukið sjálfstraust en svo skora þeir fimmta mark leiksins og þar hefði ég þurft að stíga upp og hjálpa liðinu en það gerðist ekki og eftir það fjarar þetta út.“

Varnarleikur Valsmanna var vægast sagt slakur og komu öll mörk Skagamanna eftir einstaklingsmistök í öftustu víglínu Vals.

„Við erum alveg eins og jólasveinar í þessum mörkum sem við fáum á okkur. Ég þarf að skoða þetta aftur en í minningunni þá er þetta alveg fáránlega auðvelt fyrir þá og við stöndum vitlaust og gerum asnaleg mistök í leiðinni.

Ef að við spilum svona varnarleik þá geta öll liðin í deildinni skorað þrjú til fjögur mörk á okkur þannig að við verðum að gjöra svo vel og laga þetta því við vorum að gera fínustu hluti, fram á við, í dag.“

Valsmenn unnu sannfærandi sigra gegn Gróttu og HK í síðustu tveimur leikjum sínum en voru rifnir harkalega niður á jörðina í kvöld.

„Mér finnst hafa verið fínn bragur á þessu hjá okkur og fínn taktur í fyrstu leikjunum. Menn eru í góðu standi og taktíkin er að smella. Leikurinn í kvöld er að sjálfsögðu ákveðið bakslag en við verðum að passa okkur að sökkva ekki of djúpt því við erum búnir að vera gera flotta hluti.

Það er fáránlegt að segja það því 4:1 er hræðileg úrslit en það var ýmislegt jákvætt sem við vorum að gera í dag. Við þurfum að jafna okkur sem fyrst á þessu tapi og mæta ákveðnir í næsta leik, staðráðnir í að svara fyrir okkur,“ bætti Hannes Þór við í samtali við mbl.is.

mbl.is