Fjarðabyggð valtaði yfir Víði

Nikola Kristinn Stojanovic gerði tvö mörk fyrir Fjarðabyggð en hann …
Nikola Kristinn Stojanovic gerði tvö mörk fyrir Fjarðabyggð en hann er lánsmaður frá Þór Akureyri. Ljósmynd/Fjarðabyggð

Fjarðabyggð fagnaði 6:1-sigri á Víði í eina leik dagsins í 2. deild karla í fótbolta í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.

Spánverjinn José Fernández kom Fjarðabyggð yfir strax á þriðju mínútu og Filip Sakaluk bætti við öðru marki á 15. mínútu og Frakkinn Faozi Benabbas bætti við þriðja markinu á 25. mínútu. 

Fjarðabyggð skoraði fjórða markið á 43. mínútu og það gerði Nikola Kristinn Stojanovic úr víti eftir að Jón Gunnar Sæmundsson braut af sér og fékk beint rautt spjald. Þrátt fyrir liðsmuninn minnkaði Anibal Hernández muninn á 47. mínútu 4:1. 

Fjarðabyggð átti hins vegar lokaorðin því Króatinn Vice Kendes bætti við fimmta markinu á 49. mínútu og Nikola Kristinn skoraði annað markið sitt og sjötta mark Fjarðabyggðar á 85. mínútu og þar við sat. 

mbl.is