Fullt af mörkum í Fylkisliðinu

Valdimar Þór Ingimundarson í leik með Fylkismönnum gegn Gróttu í …
Valdimar Þór Ingimundarson í leik með Fylkismönnum gegn Gróttu í síðustu umferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var frábært að fá þrjú stig  hérna í dag,“ sagði Valdimar Þór Ingimundarson, leikmaður  Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Fjölni í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Extra-vellinum í Grafarvogi í dag.

Valdimar Þór Ingimundarson og Hákon Ingi Jónsson skoruðu mörk Árbæinga í dag en það var Daninn Christian Sivebæk sem skoraði eina mark Grafarvogsliðsins.

„Þetta var lélegur leikur hjá okkur en karakter að klára þetta í restina. Við vorum kærulausir sóknarlega fannst mér og við hefðum mátt gera mun betur á þeim enda vallarins, sérstaklega í fyrri hálfleik. Eftir að við komumst yfir samt þá fannst mér við vera með góða stjórn á leiknum og við sigldum þessu nokkuð þægilega heim undir restina.

Það tekur mann alltaf tíma að ná upp ákveðnum takti eftir langt hlé. Það voru nokkrir leikmenn liðsins meiddir, rétt fyrir mót, en þetta er allt á réttri leið hjá okkur finnst mér og stígandinn í síðustu leikjum hefur verið mjög góður.“

Flestir spá því að Fylkismenn muni berjast í neðri hluta töflunnar í sumar og því var sigurinn afar kærkominn fyrir Árbæinga.

„Þetta eru leikirnir sem við gerum kröfu á okkur sjálfa að klára og við gerðum það í dag. Við gerðum það vel líka því eins og ég sagði áðan á var þetta ekki góður leikur af okkar hálfu en samt sem áður þá náðum við stigin þrjú og það er það sem þetta snýst um þegar allt kemur til alls.“

Valdimar Þór hefur nú skorað fjögur af fimm mörkum Fylkis í sumar en hann ítrekar að það séu fleiri markaskorarar í liðinu.

„Það er fullt af mörkum í þessu liði. Stundum dettur þetta hjá mér og stundum dettur þetta hjá einhverjum öðrum. Ég get lofað þér því að það munu margir komast á blað í sumar hjá okkur en það tekur bara tíma,“ bætti Valdimar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert