Grindavík fékk fimm rauð spjöld í sigurleik

Scott Ramsay í leik gegn Fram en hann var einn …
Scott Ramsay í leik gegn Fram en hann var einn þeirra sem reknir voru af velli gegn Frömurum árið 2008. mbl.is/Ómar Óskarsson

Víkingar eru ekki fyrsta liðið í sögu úrvalsdeildar karla í fótbolta til að ljúka leik með aðeins átta menn vegna rauðra spjalda en þrír þeirra voru reknir af velli í 2:0 ósigri gegn KR á Meistaravöllum í dag.

Það gerðu Grindvíkingar gegn Fram á Laugardalsvellinum 8. júní árið 2008 þegar þrír þeirra fengu rauða spjaldið, Marinko Skaricic, Zoran Stamenic og Scott Ramsay, á 60., 86. og 88. mínútu.

Að auki fengu þjálfarinn Milan Stefán Jankovic og forráðamaðurinn Ingvar Guðjónsson rauða spjaldið eftir leik. Dómari leiksins var Garðar Örn Hinriksson.

En samt unnu Grindvíkingar leikinn 1:0 með marki sem Stamenic skoraði á 57. mínútu.

Þremur vikum síðar, 30. júní 2008, fengu þrír Skagamenn rauða spjaldið í leik gegn KR í Vesturbænum. Þá fengu leikmennirnir Vjekoslav Svadumovic og Bjarni Guðjónsson rauða spjaldið, sem og þjálfarinn Guðjón Þórðarson í hálfleik. KR vann þann leik 2:0. Garðar Örn dæmdi líka þann leik.

mbl.is