Létum ekki ömurlegt undirlag stjórna ferðinni

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í dag.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér fannst við hafa yfirhöndina mest allan tímann. Kannski sérstaklega í seinni hálfleik. Við vorum töluvert sterkari aðilinn og sköpuðum okkur fullt af færum,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2:2-jafntefli gegn KA á Akureyri í fjórðu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu.

„Við spiluðum vel og létum ekki undirlagið á þessum ömurlega grasvelli taka stjórnina. Ég er ofboðslega stoltur af mínum mönnum að hafa náð að spila eins og við spiluðum í þessum leik.“

Mikið hefur verið talað um undirlagið á Greifavellinum. Óskar var spurður hvort honum fyndist völlurinn boðlegur fyrir efstu deild

„Þú veist svarið við því. Ég ætla ekki að segja neitt. Þú mátt skrifa það sem þú villt skrifa. En þú veist svarið.“

„Mér fannst við fá fullt af færum og hefðum auðvitað viljað nýta eitthvað af þeim en eftir stendur að við fórum á einn erfiðasta útivöll landsins. Stjórnuðum leiknum nánast frá upphafi og ég er mjög ánægður með mína menn.“

Bæði lið fengu víti á lokamínútum leiksins. Aðspurður um þessa dóma sagði Óskar. 

„Ég á bara eftir að sjá þá. En mér er sagt að vítið sem við fengum á okkur hafi ekki verið víti en ég get svo sem ekkert gert í því í dag. En ég ætla bara að segja það svo það sé fært til bókar að mér fannst dómgæslan ekki góð í dag. Ekki frekar en hún var í leikjunum í gær og það er ákveðið áhyggjuefni hvað dómarar eru hægir upp úr Covid-fríinu.“ 

Það var hart tekist á á Greifavelli í dag.
Það var hart tekist á á Greifavelli í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is