Bjartir tímar framundan í Garðabæ

Það var hart tekist á á Hlíðarenda í kvöld.
Það var hart tekist á á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er alltaf svekkjandi að tapa,“ sagði Arna Dís Arnþórsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 3:0-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst við eiga fína spilkafla í leiknum en við fáum á okkur tvö mörk snemma leiks og þá er erfitt að vinna sig inn í leikinn eftir svoleiðis áfall. Að sama skapi héldum við áfram allan tímann, gáfumst aldrei upp, og það er jákvætt.

Við komum inn í leikinn með það að markmiði að gera betur en í leiknum gegn Selfossi í síðustu umferð og það tókst ágætlega þótt það sé auðvitað alltaf ömurlegt að fá á sig þrjú mörk í leik.“

Stjarnan fékk nokkur góð tækifæri til þess að skora í dag en liðinu gekk illa að hitta rammann í færunum sínum.

„Við ætluðum klárlega að reyna setja á þær mörk en það sem vantaði hjá okkur var að klára færin í dag. Það hafa verið ákveðnar róteringar á liðinu í undanförnum leikjum en mér finnst við hafa gert nokkuð vel í að leysa það og núna þurfum við bara að fara skora mörk.“

Stjarnan er með 6 stig í sjötta sæti deildarinnar en liðið hefur unnið tvo leiki það sem af er sumri og tapað þremur.

„Það er fullt af efnilegum, uppöldum leikmönnum í liðinu og það eru bjartir tímar framundan í Garðabænum. Við ætlum að taka einn leik fyrir í einu í sumar og svo sjáum við hverju það skilar okkur í haust,“ bætti Arna Dís við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert