Kári getur ekki gleymt KR-leiknum

Kári Árnason í fyrsta leik tímabilsins 2020 með Víkingi gegn …
Kári Árnason í fyrsta leik tímabilsins 2020 með Víkingi gegn Fjölni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og aðrir Víkingar vill Kári Árnason eflaust gleyma sem fyrst leiknum við KR í úrvalsdeild karla í fótbolta á Meistaravöllum á laugardaginn. Hann var rekinn af velli ásamt tveimur liðsfélögum sínum.

En leiknum getur Kári samt ekki gleymt því þar náði hann stórum áfanga á löngum ferli sínum í meistaraflokki. Þetta  var hans 450. deildaleikur á ferlinum, innanlands sem erlendis, og Kári er aðeins ellefti Íslendingurinn til að ná þessum leikjafjölda.

Kári hefur nú leikið 55 deildaleiki á Íslandi, alla með Víkingi. Fyrstu 26 leikina spilaði hann í 1. deild á árunum 2001 til 2003 en síðan 29 leiki í úrvalsdeildinni á árunum 2004, 2019 og 2020.

Hann lék 72 leiki í Svíþjóð með Djurgården og Malmö, 58 í Danmörku með AGF og Esbjerg, 191 á Englandi með Plymouth og Rotherham, 53 í Skotlandi með Aberdeen, 8 á Kýpur með Omonia og 13 í Tyrklandi með Genclerbirligi. Samtals gerir þetta 450 leiki.

Þegar Íslandsmótið hófst var Kári í 14. sæti yfir leikjahæstu Íslendingana frá upphafi með 446 leiki en hann hefur í þessum fjórum leikjum farið uppfyrir þrjá þeirra, Guðna Bergsson, Gest Gylfason og Lárus Orra Sigurðsson. Nú er röðin á leikjahæstu Íslendingunum þessi:

523 Arnór Guðjohnsen
520 Ívar Ingimarsson
512 Hermann Hreiðarsson
504 Eiður Smári Guðjohnsen
492 Heiðar Helguson
481 Ásgeir Sigurvinsson
465 Arnar Þór Viðarsson
462 Atli Eðvaldsson
462 Rúnar Kristinsson
460 Tryggvi Guðmundsson
450 Kári Árnason

Með því að leika 16 af þeim 18 leikjum sem Víkingar eiga eftir gæti Kári verið kominn í sjöunda sæti í lok Íslandsmótsins. Þegar liggur þó fyrir að hann missir af næsta leik sem er gegn Val á miðvikudagskvöldið en þá tekur Kári út leikbann vegna rauða spjaldsins í KR-leiknum.

mbl.is