Ristarbrotnir tvíburabræður samstíga í meiðslum

Nökkvi Þeyr Þórisson í leik með KA á undirbúningstímabilinu.
Nökkvi Þeyr Þórisson í leik með KA á undirbúningstímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Nökkvi Þeyr Þórisson, leikmaður KA í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla á fæti en þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í dag. Nökkvi er ristarbrotinn en um álagsmeiðsli er að ræða hjá sóknarmanninnum efnilega sem verður 21 árs gamall í ágúst.

„Ég er í göngugifsi eins og staðan er í dag,“ sagði Nökkvi í samtali við mbl.is. „Ég má ekki stíga í löppina og verð því í göngugifsinu næstu fjórar vikurnar eða allt þangað til að ég má prófa að stíga í fótinn aftur.

Það er ekki alveg vitað hvenær þetta gerist nákvæmlega en þetta eru álgasmeiðsli og þetta hefur gefið sig á einhverjum tímapunkti. Ég fann fyrir verki í beininu og sársaukinn fór einhvernvegin aldrei. Eftir myndatöku kemur svo í ljós að ég er með brot en þetta er kallað fimmta ristarbeinið, beinið utan á ristinni semsagt,“ bætti Nökkvi við en hann á að baki 19 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

KA-menn fagna marki gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni í gær.
KA-menn fagna marki gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni í gær. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Á leið í aðgerð

Nökkvi Þeyr ítrekar að meiðslin hafi ágerst í leiknum gegn Víkingum þann 20. júní síðastliðinn á Greifavelli á Akureyri.

„Ég var búinn að vera verkjaður í smá tíma og svo í Víkingsleiknum þá lendi ég illa á löppina. Ég fann fyrir ennþá meiri sársauka eftir það. Ég að spilaði svo mjög verkjaður í leiknum gegn Leikni í 3. umferð bikarkeppninnar og ég gat varla hlaupið eftir þann leik.

Þá var tekin sú ákvörðun að ég myndi fara í myndatöku þar sem brotið kom í ljós. Læknarnir vildu senda mig beint í aðgerð sem var örugga leiðin en þá væri tímabilið búið hjá mér. Annars átti ég að prófa gönguspelku í fjórar vikur, svo tvær til viðbótar, og ef ég er góður eftir þann tíma á ég að geta klárað tímabilið. Eftir sumarið þá mun ég svo alltaf fara í aðgerð.“

Tvíburabróðir Nökkva, Þorri Mar Þórisson, er að glíma við nákvæmlega sömu meiðsli en á meðan Nökkvi er meiddur á hægri fæti er Þorri að glíma við meiðsli á þeirri vinstri.

„Hann er að glíma við nákvæmlega sömu meiðlsi, bara á vinstri fætinum. Hann meiðist í einhverjum æfingaleiknum og brákast að öllum líkindum. Þeir héldu að þetta væri gróið en svo hann í leik á móti Grindavík á undirbúningstímabilinu í lok maí.

Hann fór beint í aðgerð og má reikna með því að hann geti byrjað að æfa eftir um þrjár vikur. Við höfum oft átt við sömu meiðsli að stríða í gegnum tíðina, sérstaklega vöðvameiðsli, og við erum því mjög samstíga í þessu,“ bætti Nökkvi við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert