Þróttur fór með sigur í nýliðaslagnum

Nýliðaslagurinn í Kaplakrika í kvöld.
Nýliðaslagurinn í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þróttur fór með sigur í botnslag nýliðanna gegn FH, 2:1, í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu að þessu sinni en liðin mættust í Kaplakrika í kvöld. Baráttugleði var talsverð í báðum liðum enda bæði orðin þyrst í sigur.

FH-ingum var auðsjáanlega brugðið eftir mark Stephanie Ribeiro fyrir Þrótt á fyrstu mínútu leiksins og áttu erfitt uppdráttar lengst af, eða þar til Hrafnhildur Hauksdóttir jafnaði metin með marki beint úr hornspyrnu. Fallegt mark og jafnframt kærkomið, enda það fyrsta sem FH skorar í deildinni þetta sumarið.

Rétt fyrir hálfleik vildu FH fá vítaspyrnu þegar Birta Georgsdóttir féll við eftir samstuð við Friðriku Arnardóttur, markvörð Þróttar, í vítateignum og var Guðni Eiríksson þjálfari FH rekinn útaf í kjölfarið.

Stephanie Ribeiro skoraði sitt annað mark fyrir Þrótt um mínútu seinna og varð það sigurmark leiksins. Stephanie hefur reynst Þrótturum gríðarlega mikilvæg það sem af er keppni, en hún hefur skorað fimm af átta mörkum liðsins í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar.

Talsverð barátta var í seinni hálfleik og fóru þrjú gul spjöld á loft fyrir hin ýmsu brot, þeirra á meðal hártog, og FH lá svo til í sókn síðustu mínúturnar en ekkert gekk hjá liðunum.

Verðskuldaður sigur hjá Þróttarkonum, sem voru betri heilt yfir þrátt fyrir mikið hark í báðum liðum. Þær eru nú komnar með 4 stig en FH situr eftir á botninum án stiga.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 1:2 Þróttur R. opna loka
90. mín. Uppbótartími er 5 mínútur.
mbl.is