Stjörn­una skorti kjark á Hlíðar­enda

Valskonurnar Ásdís Karen Halldórsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í baráttunni …
Valskonurnar Ásdís Karen Halldórsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistararar Vals unnu sannfærandi sigur gegn Stjörnunni þegar liðin mættust í 5. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

Hlín Eiríksdóttir kom Valskonum yfir strax á 5. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana í miðjum teignum eftir sendingu frá Ásdísi Kareni Halldórsdóttur. Hlín gerði engin mistöl og kláraði vel með vinstri fæti í vinstra horn. Ída Marín Hermannsdóttir bætti við öðru marki Valskvenna á 16. mínútu þegar hún skoraði í nánast tómt markið eftir að hafa fylgt eftir sláarskoti Hallberu Guðnýjar Gísladóttur og staðan því 2:0 í hálfleik, Valskonum í vil.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað og það var ekki fyrr en á 60. mínútu sem Vaskonum tókst að bæta við þriðja markinu. Hlín átti þá frábæran sprett upp hægri kantinn, lagði boltann fyrir á Elínu Mettu sem náði skoti á markið. Skotið fór af varnarmanni og datt niður í teignum fyrir Ásdísi Kareni sem þrumaði boltanum í netið af stuttu færi og staðan orðin 3:0.

Valskonur fara með sigrinum upp í 15 stig og hafa nú 6 stiga forskot á toppi deildarinnar en Stjarnan er í sjötta sætinu með 6 stig.

Ásdís Karen Halldórsdóttir í baráttunno á Hlíðarenda í kvöld.
Ásdís Karen Halldórsdóttir í baráttunno á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Öruggir Íslandsmeistarar

Valskonur mættu af gríðarlegum krafti út í leikinn og voru komnar yfir eftir einungis fimm mínútna leik. Þær hafa byrjað alla leiki sína í sumar af miklum krafti og það er alveg ljóst að Íslandsmeistaratitilinn á ekki að yfirgefa Hlíðarenda í haust þegar tímabilinu lýkur.

Að skora snemma gefur Valsliðinu ekki bara aukið sjálfstraust, það dregur líka máttinn úr andstæðingum liðsins, og eftir að Valskonur voru komnar tveimur mörkum yfir þá var í raun aldrei spurning hvernig leikurinn myndi fara.

Valsliðið spilar ekki eins og lið sem er að verja Íslandsmeistaratitil, þær spila eins og lið sem ætlar sér að sækja Íslandsmeistaratitil. Þær hafa nú sex stiga forskot á toppi deildarinnar á lið Breiðabliks sem er í sóttkví og eins og staðan er í dag eru Íslandsmeistararnir á Hlíðarenda með öll tromp á hendi í baráttunni um bikarinn.

Birta Guðlaugsdóttir spyrnir frá marki Stjörnunnar.
Birta Guðlaugsdóttir spyrnir frá marki Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Skref fram á við

Garðbæingar voru slakir fyrstu þrjátíu mínútur leiksins og í raun skíthræddir við Valsliðið sem mætti af krafti í leikinn. Það var ekki fyrr en á 35. mínútu sem fyrsta alvöru marktilraun Stjörnunnar leit dagsins ljós en boltinn fór rétt fram hjá marki Valskvenna úr upplögðu tækifæri.

Stjarnan var mun hætturlegri aðilinn síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiksins og hefði hæglega getað potað inn marki og gert alvöru leik úr þessu á Hlíðarenda. Þeim tókst hins vegar ekki að skora og liðið mætti svo bara út í seinni hálfleikinn til þess að halda fengnum hlut.

Kristján Guðmundsson setti einn besta sóknarmann liðsins, Shameeku Fishley, inn á 88. mínútu og ef hún var ekki tæp vegna meiðsla var það galin ákvörðun. Garðbæingar reyndu varla að sækja í síðari hálfleik og þú skorar ekki mörg mörk á eigin vallarhelmingi í fótbolta. Að sama skapi var leikurinn skref fram á við frá 4:1-tapinu gegn Selfossi í síðustu umferð sem er jákvætt.

Valur 3:0 Stjarnan opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert