Framarar með fullt hús eftir sigur í Ólafsvík

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þröstur Albertsson

Fram er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í Lengjudeild karla í fótbolta en liðið gerði góða ferð til Ólafsvíkur í kvöld og vann 2:1-sigur á Víkingi. 

Már Ægisson kom Fram yfir á 17. mínútu og Brasilíumaðurinn Fred bætti við marki á 41. mínútu og var staðan í hálfleik 2:0. 

Spánverjinn Gonzalo Zamorano minnkaði muninn fyrir Ólsara á 56. mínútu en þrátt fyrir mikla pressu tókst heimamönnum ekki að jafna og Framarar fögnuðu þremur stigum í fjórða skipti í sumar. 

Fram er því með tólf stig eins og ÍBV og eru liðin í tveimur efstu sætunum. Þór, sem er í þriðja sæti með níu stig, leikur við Vestra á heimavelli á morgun og getur komist upp að hlið toppliðanna á ný. 

mbl.is