Keflavík og Tindastóll í sérflokki

Mist Þormóðsdóttir Grönvold í baráttunni við Stefaníu Ástu Tryggvadóttur á …
Mist Þormóðsdóttir Grönvold í baráttunni við Stefaníu Ástu Tryggvadóttur á Víkingsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Keflavík virðist ekki ætla að stoppa lengi við í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, en liðið vann öruggan 4:0-sigur gegn Fjölni í 4. umferð deildarinnar á Extra-vellinum í Grafarvogi í gær. Dröfn Einarsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Keflavík í leiknum en staðan að loknum fyrri hálfleik var 3:0, Keflvíkingum í vil.

Natasha Anasi skoraði fyrsta mark leiksins áður en Dröfn bætti við þremur mörkum til viðbótar en Keflavík féll úr efstu deild síðasta haust og stefnir hraðbyr á endurkomu í úrvaldeildinni. Liðið er með 10 stig í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar og markatöluna 14:1 en Fjölnir er í sjöunda sætinu með 3 stig.

Tindastóll fylgir fast á hæla Keflavíkur en Hugrún Pálsdóttir reyndist hetja Sauðkrækinga þegar liðið fékk Augnablik í heimsókn á Sauðárkróksvöll. Hugrún skoraði sigurmark leiksins á 21. mínútu en Augnablik var án þriggja leikmanna sem voru í sóttkví vegna kórónuveirusmits í liði Breiðablik en Augnablik er varalið Breiðabliks. Tindastóll jafnaði Keflavík að stigum á toppi deildarinnar en Sauðkrækingar hafa skorað sjö mörk í sumar og  fengið á sig tvö en Augnablik er í áttunda sætinu með 1 stig.

Dröfn Einarsdóttir skoraði þrennu fyrir Keflavík í kvöld.
Dröfn Einarsdóttir skoraði þrennu fyrir Keflavík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annar sigur Gróttu í sumar

Þá eru nýliðar Gróttu komnir upp í fjórða sæti deildarinnar eftir afar sterkan 3:1-sigur gegn Víkingi á Víkingsvelli í Fossvogi. Helga Rakel Fjalarsdóttir, María Lovísa Jónasdóttir og Emelía Óskarsdóttir skoruðu mörk Gróttu en Stefanía Ásta Tryggvadóttir skoraði eina mark Víkinga í stöðunni 2:0. Grótta er með 8 stig í fjórða sæti deildarinnar en Víkingur er í því níunda með 1 stig.

Skagastúlkur unnu sinn fyrsta leik í deildinni í sumar þegar botnlið Völsungs kom í heimsókn á Norðurálsvöllinn á Akranesi. Leiknum lauk með 4:0-sigri ÍA en þær Jaclyn Poucel, Erla Karítas Jóhannsdóttir, Unnur Ýr Haraldsdóttir og Fríða Halldórsdóttir skoruðu mörk ÍA í leiknum. Skagastúlkur fara með sigrinum upp fyrir Aftureldingu í fimmta sæti deildarinnar í 6 stig en Völsungar er án stiga á botni deildarinnar.

mbl.is