KSÍ svarar KA-mönnum

Greifavöllur var gagnrýndur eftir leik KA og Breiðabliks á laugardag.
Greifavöllur var gagnrýndur eftir leik KA og Breiðabliks á laugardag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, var ósáttur við úthlutun úr mannvirkjasjóði KSÍ eftir umræðu um slæmt ástand Greifavallarins á Akureyri. 

Nefndi hann styrk sem önnur félög fengu vegna annarra verkefna á Facebook í gær og var ósáttur við forgangsröðun KSÍ. Sambandið svarar Sævari í frétt á vef sínum í gær. 

Svar KSÍ við gagnrýni Sævars: 

Þrjátíu og sjö umsóknir bárust í mannvirkjasjóð KSÍ árið 2020 og er heildarkostnaður við áætlaðar framkvæmdir tæpir 5,6 milljarðar kr. Til úthlutunar í ár voru 30 milljónir og hlutu 20 verkefni styrk.

KA sótti um í mannvirkjasjóð KSÍ 2020 fyrir verkefni sem átti að ráðast í og ljúka á keppnistímabilinu 2020 (drenlögn á Akureyrarvöll). Umsóknin fékk sömu umfjöllun hjá mannvirkjanefnd og stjórn KSÍ og aðrar umsóknir í mannvirkjasjóðinn. Fyrirliggjandi eru skorkort fyrir hverja umsókn og því mjög skýrt hvaða umsóknir ná að uppfylla skilyrði reglugerðar sjóðsins um styrk og hverjar ekki.

Öll verkefni sem bæta aðstöðu knattspyrnuhreyfingarinnar eru mikilvæg og myndi KSÍ gjarnan vilja styrkja sem flest þeirra. Fjármagnið í sjóðinn er hins vegar takmarkað og því eru umsóknir metnar samkvæmt gildandi skorkorti til að tryggja gegnsæi og stöðugleika við ákvarðanatöku.

Skv. áætlun Akureyrarbæjar um framtíðarkeppnisvöll félagsins þá mun hann verða byggður upp á félagssvæði KA. Ekki er hins vegar fyllilega ljóst hvenær aðalkeppnisvöllur KA verður kominn upp á félagssvæði KA og vonandi skýrist það sem fyrst. Engu að síður hefur KA verið hvatt til að endurnýja sína umsókn fyrir næstu úthlutun sjóðsins, sem mun liggja fyrir í apríl 2021.

(uppfært að beiðni KSÍ 8. júlí kl. 14:18)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert