Óvæntur sigur vestanmanna á Akureyri

Vestramenn, hvítklæddir, kræktu í þrjú stig á Akureyri í kvöld.
Vestramenn, hvítklæddir, kræktu í þrjú stig á Akureyri í kvöld. mbl.is/Íris

Nýliðar Vestra frá Ísafirði unnu óvæntan sigur gegn Þór á Akureyri í kvöld, 1:0, í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, en þetta er fyrsti sigur vestanmanna og fyrstu stigin sem Þórsarar tapa á tímabilinu.

Vestramenn voru þar að auki manni færri nær allan síðari hálfleikinn eftir að framherjinn Vladimir Tufegdzic fékk rauða spjaldið á 50. mínútu fyrir harkalega tæklingu.

Spænski miðjumaðurinn Nacho Gil, sem áður lék með Þór, skoraði sigurmark Vestra undir lok fyrri hálfleiks. Sá hálfleikur var með ríflega 20 mínútna uppbótartíma eftir að Elmar Atli Garðarsson fyrirliði Vestra, meiddist á öxl um miðjan fyrri hálfleik og þurfti mikla aðhlynningu á vellinum áður en hann var fluttur brott.

Vestri er þá kominn með 4 stig og fer upp í sjöunda sæti deildarinnar en Þórsarar eru í þriðja sætinu með 9 stig. Þeir gætu síðar í kvöld misst annaðhvort Grindavík eða Keflavík uppfyrir sig en leikur þeirra stendur nú yfir í Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert