Söknuðu sinna bestu manna gegn Val

Valsmenn fagna Valgeiri Lunddal Friðrikssyni eftir að hann skoraði annað …
Valsmenn fagna Valgeiri Lunddal Friðrikssyni eftir að hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Vals í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og skoruðu fimm mörk þegar liðið heimsótti Víkinga í 5. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvöll í Fossvogi í kvöld en leiknum lauk með 5:1-sigri Valsmanna.

Óttar Magnús Karlsson kom Víkingum yfir strax á 4. mínútu þegar Dofri Snorrason labbaði fram hjá Birki Má Sævarssyni á vinstri kantinum, renndi boltanum fyrir markið á Óttar Magnús sem lét vaða í fyrsta með vinstri fæti og boltinn lak fram hjá Hannesi Þór Halldórssyni í marki Valsmanna. Valgeir Lunddal Valgeirsson jafnaði metin fyrir Valsmann, fjórum mínútum síðar, en þá var það Patrick Pedersen sem labbaði fram hjá Viktori Örlygi Andrasyni á hægri kantinum. Pedersen sendi fyrir marki og varnarmenn Víkinga náðu að reka tánna í boltann sem barst út í teiginn á Valgeir Lunddal sem hamraði boltann í netið og staðan orðin 1:1.

Patrick Pedersen kom Valsmönnum svo yfir, 2:1, á 12. mínútu þegar Víkingar reyndu að spila frá marki. Tómas Guðmundsson átti þá misheppnaða sendingu til baka sem Kristinn Freyr Sigurðsson komst inn í. Kristinn reyndi skot af marki úr markteignum sem Þórður Ingason varði. Frákastið datt fyrir Pedersen sem skoraði af öryggi með hægi fæti í hægra horn. Valgeir Lunddal bætti svo við þriðja marki Valsmanna á 43. mínútu þegar hann lét vaða óáreittur, rétt utan teigs. Boltinn lak í markið en Þórður Ingason átti að gera miklu betur í marki Víkinga. Víkngar leiddu því 3:1 í hálfleik.

Patrick Pedersen bætti við fjórða marki Valsmanna og sínu öðru marki á 57. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi úr teignum eftir að Þórður Ingason hafði varið vel frá Kristni Frey Sigurðssyni sem var sloppinn í gegn. Aron Bjarnason bætti svo við fimmta marki Valsmanna á 79. mínútu þegar Þórði Ingasyni mistókst að hreinsa frá marki og þar við sat.

Valsmenn fara með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í 9 stig en Víkingar eru í níunda sætinu með 5 stig eftir fyrstu fimm leiki sína.

Lykilmaður í titilbaráttunni

Valsmenn byrjuðu leikinn eins illa og hægt er að hugsa sér. Þeir misstu hins vegar ekki hausinn og voru búnir að jafna metin fjórum mínútum síðar. Það hefði verið auðvelt að fara inn í skelina, nýbúinn að tapa 4:1- á heimavelli gegn liði sem þeir eiga að vera sterkari á pappír.

Þá komust þeir yfir skömmu síðar en sóknarleikur Valsmanna tikkaði mjög vel í kvöld með Kristinn Frey Sigurðsson fremstan í flokki. Valsmenn eru einfaldlega allt annað lið þegar hann er inn á vellinum og það er lykilatriði fyrir Valsmenn að hann haldist heill og sé í standi ef þeir ætla sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

Varnarleikur Valsmanna var hins vegar tæpur og þeir Sebastian Hedlund og Rasmus Christiansen voru ekki sannfærandi. Þetta slapp í dag enda gegn sterkari andstæðingi hefðu Valsmenn klárlega getað lent í vandræðum. Þeir verða að fá Eið Aron Sigurbjörnsson inn sem fyrst enda þeirra lang besti miðvörður.

Leiðtogalausir Víkingar

Víkingar voru ekki bara án sinna þriggja bestu varnarmanna heldur voru þeir að spila án sinna mikilvægustu leikmanna líka. Það sást mjög greinilega á leik Víkingsliðsins í kvöld hversu leiðtogalausir þeir voru þegar mest á reyndi. Óttar Magnús Karlsson er frábær leikmaður en hann ber þetta lið ekki á herðum sér.

Mörkin sem Víkingar voru að fá á sig voru klaufaleg og komu eftir einstaklingsmistök. Það var algjörlega viðbúið enda annar miðvörður liðsins ekki spilað keppnisleik síðan 2016. Þá var hinn miðvörður liðsins miðjumaður og þeir voru ekki beint að tengja í öftustu víglínu.

Þá virkaði Þórður Ingason óöruggur í sínum aðgerðum sem er væntanlega vegna þess að Sölvi Geir og Halldór Smári voru ekki fyrir framan hann að stýra honum. Stuðningsmenn Víkinga voru ósáttir með dómgæsluna í leiknum og öskruðu og skömmuðust allan seinni hálfleikinn en 5:1-tap liðsins í kvöld skrifast ekki á dómara leiksins sem komst ágætlega frá sínu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 1:5 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum sigri Valsmanna.
mbl.is