Þetta víti var grín

Viktor Jónsson
Viktor Jónsson mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Við erum mjög svekktir, þetta eru tvö töpuð stig finnst mér,“ sagði svekktur Viktor Jónsson, framherji ÍA, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli við HK í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. ÍA komst tvisvar yfir í leiknum, en HK gafst ekki upp og jafnaði í bæði skiptin. 

„Við hefðum átt að komast í 3:1, ég klúðraði tveimur færum sem ég átti að skora úr. Þetta víti var grín fannst mér, þetta var aldrei hendi á Óttar. Þetta er pirrandi og ég er rosalega svekktur,“ sagði Viktor en HK jafnaði í 2:2 með marki úr víti tólf mínútum fyrir leikslok. 

Skömmu síðar vildi ÍA fá víti, en ekkert var dæmt og var þjálfarateymi ÍA allt annað en sátt í leikslok. 

„Ég sá það ekki, ég var einu skrefi á undan Hlyn og hann dettur aftan á mig. Strákarnir voru að tala um að þetta hafi verið klárt brot. Það var mikið af skrítnum ákvörðunum en mér fannst þetta alveg þokkalega dæmt. Leikir við HK verða alltaf heitir, við þurfum að passa upp á að þetta fari ekki í hausinn á okkur.“

„Við vorum svolítið klaufalegir í þessum leik og áttum aukagír inni. Við vorum að klikka á sendingum og vorum ekki eins ákafir í pressunni og þetta var ekki nógu gott. Ég veit ekki hvort við áttum eftir að koma okkur niður á jörðina eftir síðasta leik. Við eigum að gera miklu betur en þetta,“ sagði Viktor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert