Sannfærandi Fylkismenn komnir í þriðja sæti

Hákon Ingi Jónsson og Ívar Örn Árnason í baráttunni í …
Hákon Ingi Jónsson og Ívar Örn Árnason í baráttunni í kvöld og þeir Rodrigo Gómez og Arnar Sveinn Geirsson fylgjast með. mbl.is/Árni Sæberg

Fylkismenn eru komnir í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, eftir sigur á KA, 4:1, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld.

Fylkir er þá með 9 stig eftir fimm leiki og hefur unnið þrjá leiki í röð eftir tvö töp í byrjun móts. KA situr eftir með tvö stig úr fjórum leikjum og er í næstneðsta sætinu.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. KA átti fyrsta hættulega færið þegar Almarr Ormarsson skaut föstu skoti sem Aron Snær Friðriksson varði vel út í vítateiginn.

Fylkismenn náðu forystunni á 31. mínútu með vel útfærðri skyndisókn. Valdimar Þór Ingimundarson sendi inn í vítateiginn hægra megin þar sem Djair Parfitt-Williams var mættur einn gegn markverði og skoraði af öryggi, 1:0.

Fylkir átti hættulegar sóknir í kjölfarið en Aron Dagur Birnuson í marki KA varði það sem á markið kom án teljandi vandræða.

KA-menn sóttu af talsverðum krafti á lokakafla fyrri hálfleiks og fengu nokkrar hornspyrnur og Mikkel Qvist grýtti boltanum fyrir markið úr nokkrum innköstum en þeir náðu ekki að skapa sér opin færi úr því.

KA byrjaði seinni hálfleikinn betur og Hrannar Björn Bergmann átti skot í stöng á 50. mínútu. Fylkismenn voru hinsvegar snöggir að vinna sig útúr því og bæði Valdimar og Parfitt-Williams voru nærri því að bæta við marki. Valdimar átti hörkuskot rétt framhjá markinu og Bermúdamaðurinn skalla í hliðarnetið af örstuttu færi.

KA jafnaði metin á 67. mínútu. Hallgrímur Mar Bergmann komst framhjá Aroni Snæ markverði við endamörkin vinstra megin og renndi á Guðmund Stein Hafsteinsson sem sneri sér með boltann á markteignum og sendi hann í netið, 1:1.

Fylkismenn voru fljótir að ná yfirhöndinni á ný. Uppúr hornspyrnu stuttri á 73. mínútu fékk Daði Ólafsson boltann frá Valdimar rétt fyrir utan vítateig og skoraði með föstu skoti, 2:1.

Og því fylgdu þeir heldur betur eftir. Á 75. mínútu átti Djair Parfitt-Williams hörkuskot utan teigs sem Aron Dagur varði en hélt ekki boltanum. Valdimar Þór Ingimundarson náði honum, lék framhjá markverðinum og skoraði, 3:1.

Fylkismenn létu enn kné fylgja kviði og bættu við fjórða markinu á 87. mínútu. Eftir hornspyrnu og skot frá Nikulási Val Gunnarssyni í varnarmann skoraði Orri Sveinn Stefánsson með föstu skoti af markteignum, 4:1.

Arnar Sveinn Geirsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Fylkis …
Arnar Sveinn Geirsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Fylkis og er hér í kapphlaupi við Hallgrím Mar Bergmann í liði KA. mbl.is/Árni Sæberg


Valdimar og Djair gerðu útslagið

Lengi vel stefndi alls ekki í svona lokatölur því leikurinn var í járnum í 70 mínútur og eftir að KA-menn jöfnuðu metin var útlit fyrir enn harðari slag á lokasprettinum. En þá sýndu Fylkismenn svo sannarlega þau gæði sem þeir búa yfir og gerðu út um leikinn á nokkrum mínútum, með þá Valdimar Þór Ingimundarson og Djair Parfitt-Williams, að öðrum ólöstuðum bestu menn liðsins ásamt Orra Sveini Stefánssyni miðverði. Það var við hæfi að Orri ætti lokaorðið í leiknum en hann steig ekki feilspor í vörn Árbæinga allan tímann.

Fylkisliðið hefur staðið af sér skakkaföll, eins og að missa út tvo fyrirliða í fyrstu þremur umferðunum, fyrst Ragnar Braga Sveinsson og síðan Helga Val Daníelsson. Ungir strákar eru komnir í stór hlutverk á miðjunni, þar léku í kvöld þeir Arnór Gauti Jónsson og Nikulás Val Gunnarsson og skiluðu sínum hlutverkum mjög vel. Helgi Valur Daníelsson er úr leik og Ólafur Ingi Skúlason var ekki með í kvöld vegna meiðsla. Þeir eiga líka Sam Hewson inni, hann kom inn í hópinn eftir tveggja leikja fjarveru vegna meiðsla en kom ekki við sögu.

Þrír sigurleikir í röð ættu að gera mikið fyrir sjálfstraust Árbæinga. Þeir unnu nýliðana Gróttu og Fjölni, gáfu þar til kynna að þeir ætluðu sér sem lengst frá botnbaráttunni, og hafa nú einfaldlega boðað komu sína í efri hluta deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu í Árbænum.

KA að dragast niður í botnbaráttu?

KA-menn sitja nú eftir með aðeins tvö stig eftir fjóra leiki en það var eiginlega ótrúlegt að sjá þá missa leikinn úr höndum sér á þriggja mínútna kafla. Þeir höfðu gert margt gott í leiknum fram að því, bræðurnir Hallgrímur og Hrannar bjuggu til margar fínar sóknir og Hallgrímur lagði upp jöfnunarmarkið fyrir Guðmund Stein Hafsteinsson með skemmtilegum tilþrifum.

En varnarleikur liðsins brást þegar mest á reyndi og þá nýtti liðið ekki fjölmörg góð sóknarfæri, ekki síst í mörgum hornspyrnum og hinum gríðarlöngu innköstum frá Mikkel Qvist. KA-liðið er frekar óútreiknanlegt, það gæti með þessu framhaldi hæglega dregist niður í botnbaráttu en samt sem áður býr það margt í því að það ætti að hafa burði til að rífa sig frá henni.

KA hefur eins og Fylkir misst út sterka leikmenn. Hallgrímur Jónasson verður ekki meira með, Elfar Árni Aðalsteinsson missir af tímabilinu og Nökkvi Þeyr Þórisson er úr leik í bili. Það mun reyna á breiddina hjá KA á næstunni.

Fylkir 4:1 KA opna loka
90. mín. Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) á skalla sem er varinn Vel gert hjá Aroni Snæ, Guðmundur var í góðu færi á markteig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert