Megum ekki brotna við svona mótlæti

Almarr Ormarsson með boltann í leiknum í Árbænum í kvöld.
Almarr Ormarsson með boltann í leiknum í Árbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Almarr Ormarsson fyrirliði KA-manna sá ekki fyrir sér þriggja marka tap gegn Fylki í Árbænum þegar langt var liðið á leikinn, enda var um jafna baráttu að ræða þar til KA jafnaði metin í 1:1 á 67. mínútu viðureignar liðanna í Pepsi Max-deild karla í fótbolta. Þá gerðu Fylkismenn hinsvegar út um leikinn með þremur mörkum.

„Já, mér fannst við eiga alla möguleika í þessum leik, sérstaklega eftir að við jöfnuðum, og vera með þokkalega stjórn á málunum. Mér fannst fyrri hálfleikurinn allt í lagi hjá okkur fyrir utan þetta mark sem þeir skoruðu og þessar skyndisóknir sem þeir náðu. Við hleyptum þeim í þær, höfðum talað um það fyrir leikinn að passa upp á þær, vissum að þeir væru góðir í því að sækja hratt, með fljóta menn og spræka stráka. Samt vörðumst við illa og fyrsta markið þeirra kom eftir skyndisókn.

Mér fannst eins og við værum að taka yfir leikinn þegar við jöfnuðum, en þá bara gáfum við þeim mörk og þannig fór það. Þetta er eitthvað sem við verðum að læra af, við megum ekki brotna við svona mótlæti. Það gengur erfiðlega í þessari deild ef við ætlum að gera það," sagði Almarr.

„Það er kannski asnalegt að segja það eftir þennan leik en mér finnst við vera  búnir að sýna þokkalegar framfarir í sumar. Það hefur verið þokkalegur stígandi hjá okkur. Leikurinn í dag var alls ekki hræðilegur, en það er hinsvegar hræðilegt að fá á sig fjögur mörk. Við þurfum að skoða það. Að vera með tvö stig eftir fjóra leiki er ömurlegt og alls ekki það sem við ætluðum okkur. Ég er hundfúll með þessa byrjun. Við erum með breiðan hóp, eigum að ráða við þau meiðsli sem hafa komið upp, þó það sé leiðinlegt að missa út menn eins og Hadda og Nökkva. En við eigum að ráða betur við það," sagði Almarr Ormarsson.

mbl.is