Bikarmeistararnir aftur sannfærandi í Garðabæ

Selfoss og FH eru komin áfram í átta liða úrslit.
Selfoss og FH eru komin áfram í átta liða úrslit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkjandi bikarmeistarar Selfoss gerðu góða ferð í Garðabæinn í annað sinn á stuttum tíma og unnu þar 3:0-sigur á Stjörnunni í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta í kvöld. Vann Selfoss 4:1 er liðin mættust á sama velli í deildinni 1. júlí síðastliðinn. 

Hólmfríður Magnúsdóttir var áberandi hjá Selfossi því hún kom liðinu yfir á 42. mínútu og í 2:0 á 50. mínútu. Fékk hún gullið tækifæri til að fullkomna þrennuna á 63. mínútu en hún nýtti ekki vítaspyrnu. Það kom ekki að sök því Dagný Brynjarsdóttir bætti við þriðja marki Selfoss á 77. mínútu og þar við sat. 

Tindastóll, sem leikur í 1. deild, komst óvænt yfir á 36. mínútu gegn KR er Laufey Harpa Halldórsdóttir skoraði og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. KR-liðið var hinsvegar miklu sterkara í seinni hálfleik og Thelma Lóa Hermannsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir skoruðu tvö mörk hvor og tryggðu KR 4:2-sigur og sæti í átta liða úrslitum. 

Þróttur og FH, nýliðarnir í Pepsi Max-deildinni, mættust á Eimskipsvellinum í Laugardalnum og hafði FH betur, 1:0. Er sigurinn sá fyrsti hjá FH í sumar en liðið er án stiga í deildinni. Andrea Mist Pálsdóttir, sem kom til FH fyrir leikíðina, skoraði sigurmarkið á 16. mínútu. 

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvennu fyrir KR.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvennu fyrir KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is