Eflaust með yngstu miðju deildarinnar

Daði Ólafsson og Valdimar Þór Ingimundarson úr Fylki í baráttu …
Daði Ólafsson og Valdimar Þór Ingimundarson úr Fylki í baráttu við Hallgrím Mar Steingrímsson hjá KA. mbl.is/Árni Sæberg

Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis og KA-maður til margra ára, sagði við mbl.is eftir sigurinn á KA, 4:1, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í Árbænum í gærkvöld að leikplanið hjá liðinu hefði gengið að mestu leyti upp.

Leikur liðanna var jafn í 70 mínútur, eða þar til KA hafði jafnað metin í 1:1 en þá tóku Fylkismenn völdin og gerðu út um leikinn. 

„Okkur fannst við allan leikinn, sérstaklega í fyrri hálfleik, eiga einn til tvo gíra inni og vissum að ef við myndum teygja á þeim og rúlla boltanum fram og til baka þá myndu þeir fara að þreytast eftir um það bil 65 mínútur. Það lögðum við upp með, ákváðum að vera þolinmóðir, bættum það kannski aðeins í þessum leik og létum boltann rúlla meira en í undanförnum leikjum. Það borgaði sig," sagði Atli Sveinn.

Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson þjálfa lið Fylkis.
Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson þjálfa lið Fylkis. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við vorum eflaust með yngstu miðju deildarinnar í þessum leik með Nikka (Nikulás Val Gunnarssyni), Arnóri Gauta (Jónssyni) og Valda (Valdimar Þór Ingimundarsyni). Þeir létu boltann ganga gríðarlega vel fyrir okkur og ég held að það hafi opnað KA-liðið.“

Helgi Valur Daníelsson, Ólafur Ingi Skúlason og Sam Hewson hefðu að öllu eðlilegu spilað stóran hluta tímabilsins í stöðum miðjumanna en þeir voru ekki með í gærkvöld vegna meiðsla og Helgi verður ekki meira með á tímabilinu. Atli sagði að yngri mennirnir hefðu fyllt vel í skörðin.

„ Við vissum svo sem í vetur að við gætum ekki reiknað með Óla og Helga, þessum meisturum og frábæru leikmönnum, að eilífu þannig að við höfum smátt og smátt undirbúið menn í að taka þessi hlutverk. Nikki fékk fullt af mínútum í vetur og Valdi er náttúrulega orðinn lykilmaður hjá okkur og vonandi verður Arnór Gauti það líka.“

Fylkir er með níu stig eftir þrjá sigra í röð en Árbæjarliðið tapaði tveimur fyrstu leikjunum á tímabilinu. Atli sagði að Árbæingar væru rólegir yfir stöðunni.

„Við erum bara ennþá að þróa okkar leik. Við byrjuðum á erfiðum leikjum á móti Stjörnunni og Blikum en það var fullt af hlutum í þeim leikjum sem við gátum bætt. Það sem við höfum alltaf og verðum að halda í áfram eru liðsheild, barátta og stemning og það er það sem Fylkisliðið þarf að lifa á áfram," sagði Atli Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert