Heillaði mig upp úr skónum

Hermann ásamt Marteini og aðstoðarþjálfaranum Andy Pew.
Hermann ásamt Marteini og aðstoðarþjálfaranum Andy Pew. Ljósmynd/Þróttur Vogum

Hermann Hreiðarsson tók við 2. deildarliði Þróttar úr Vogum á dögunum. Hermann, sem lék tæplega 500 leiki á Englandi á sínum tíma, tekur við af Brynjari Gestssyni sem glímir við veikindi. 

Í spjalli við Valtý Björn Valtýsson í þættinum Mín skoðun á Sport FM segir Hermann að Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri félagsins, hafi verið snöggur að sannfæra sig. 

„Staðan hjá þeim var sú að Brynjar Gestsson, sem er búinn að vinna frábært starf þarna, á víst í veikindum, þannig hann sagði starfi sínu lausu. Ég fór á fund með Marteini framkvæmdastjóra og hann heillaði mig upp úr skónum. Hann er með ástríðu fyrir sínum klúbb, sínum fótbolta og samfélaginu í Vogum,“ sagði Hermann. 

Hermann hefur stýrt sinni fyrstu æfingu í Vogunum, en liðið leikur við Völsung á Húsavík á morgun. „Maður er að skoða þetta núna, ég er búinn að fara á eina æfingu og ég er að afla mér upplýsinga um önnur lið. Það er fínt að fá skemmtilegan útileik strax í fyrsta leik,“ sagði Hermann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert