Leikmaður Skallagríms áður gerst sekur um kynþáttaníð?

Leiðinlegt atvik átti sér stað í leik Skallagríms og Berserkja …
Leiðinlegt atvik átti sér stað í leik Skallagríms og Berserkja í gær í 4. deild karla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Jökull Johns, leikmaður knattspyrnuliðs Berserkja í 4. deild karla, varð fyrir kynþáttafordómum í leik liðsins gegn Skallagrími í Borgarnesi í gær en það var Einar Guðnason, aðstoðarþjálfari Víkings, sem greindi fyrst frá atvikinu á Twitter í gær. Þetta staðfesti Viktor Hugi Henttinen, aðstoðarþjálfari Berserkja, í samtali við fótbolti.net í gær.

„Ég var á hliðarlínunni og var því ekki í hitanum en það sem strákarnir segja mér og vinir okkar í Skallagrími eru sammála okkur þá varð smá hiti og einhverjar tæklingar. Í kjölfarið snýr leikmaður númer fimmtán í Skallagrími [Atli Steinar Ingason] sér við og segir „drullastu heim til Namibíu“ við Gunnar Jökul Johns, leikmann okkar,“ sagði Viktor Hugi Henttinen, aðstoðarþjálfari Berserkja, í samtali við Fótbolta.net í gær.

„Kormákur [Marðarson], leikmaður okkar, hafði heyrt fimm mínútum áður sama einstakling [númer 15] kalla Gunnar „apakött“. Kormákur spurði númer 15: hvað kallaðirðu hann og hann endurtók „apaköttur“. Þetta er leiðinlegt mál,“ bætti Viktor Hugi við í samtali við fótbolti.net.

Leikur Skallagríms og Berserkja fór fram í Borgarnesi.
Leikur Skallagríms og Berserkja fór fram í Borgarnesi. Eggert Jóhannesson

Tveggja ára bann fyrir kynþáttaníð

Samkvæmt heimildum mbl.is var leikmaður númer 15 í liði Skallagríms úrskurðaður í tveggja ára bann frá knattspyrnuleikjum árið 2015 fyrir kynþáttaníð í garð aðstoðardómara í leik Kormáks/Hvatar og KB í 4. deildinni sem fram fór á Blöndósi. Umræddur leikmaður var þá áhorfandi á leiknum og var bannað að mæta á fótboltaleiki næstu tvö árin. 

„Dómarar leiksins höfðu samband við okkur strax eftir leik og upplýstu okkur um að leiðinlegt atvik hefði átt sér stað í leik Skallagríms og Berserkja í gær,“ sagði Páll Snævar Brynjarsson í samtali við mbl.is í dag. „Það sem kom fram í því samtali var að leikmaður í okkar liðið hefði verð með óviðeigandi ummæli í garð leikmanns Berserkja.

Við vorum því algjörlega sammála að taka málið lengra og það er auðvitað mjög vont þegar svona kemur upp. Eins og ég segi þá erum við mjög ósátt með það þegar leikmenn í okkar liði eru með kynþáttafordóma og þetta er hegðun sem við munum ekki líða,“ bætti Páll við.

Páll Sævar kannaðist ekki við það hvort um sama leikmann væri að ræða og var dæmdur í tveggja ára bann fyrir kynþáttaníð í ágúst 2015 en Skallagrímur sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í morgun:

Yfirlýsing Skallagríms:


Í kjölfar leiks Skallagríms og Berserkja í 4. deild karla, sem fór fram á Skallagrímsvelli föstudaginn 10. júlí síðastliðinn, höfðu dómari og aðstoðardómarar leiksins samband við forráðamenn Skallagríms. Þeir upplýstu að leikmenn Berserkja tilkynntu þeim þeim að leikmaður Skallagríms hefði í leiknum viðhaft ummæli sem fælu í sér kynþáttafordóma. Jafnframt greindu þeir frá því að þeir sjálfir hefðu ekki heyrt umrædd ummæli, en að þeir myndu tilkynna þetta til KSÍ og voru forráðamenn Skallagríms sammála því að svo yrði gert.

Knattspyrnudeild Skallagríms mun ekki líða það að leikmenn viðhafi ummæli sem fela í sér kynþáttafordóma og mun félagið grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við KSÍ.

F.h. Knattspyrnudeildar Skallagríms,

Páll S. Brynjarsson, formaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert