Ótrúleg dramatík á Akranesi (myndskeið)

ÍA vann dramatískan sigur á Augnabliki.
ÍA vann dramatískan sigur á Augnabliki. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

ÍA er komið í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta eftir sigur á Augnabliki á heimavelli í lokaleik 16-liða úrslitanna í kvöld, 2:1. Eva María Jónsdóttir skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir mikla dramatík. 

Erla Karitas Jóhannesdóttir kom ÍA yfir á 27. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. Augnablik jafnaði metin á 74. mínútu með marki frá Þórhildi Þórhallsdóttur af stuttu færi á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Augnablik fékk vítaspyrnu á 89. mínútu eftir að Jaclyn Poucel varði boltann með hendi á línunni. Fékk Poucel rautt spjald fyrir vikið. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fór á punktinn en Aníta Ólafsdóttir í marki ÍA varði frá henni.

Tíu leikmenn ÍA refsuðu grimmilega því Eva María skoraði sigurmarkið í uppbótartíma með skalla eftir hornspyrnu, aðeins örskömmu eftir að Augnablik gat tryggt sér sigurinn á vítapunktinum.

ÍA fær verðugt verkefni í átta liða úrslitunum því liðið mætir Breiðabliki á heimavelli.

Svipmyndir úr leiknum má sjá hér fyrir neðan en hann var í beinni útsendingu í sjónvarpi ÍA á Youtube. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert